5.9.1998 0:00

Laugardagur 5.9.1998

Klukkan 15.00 hófst háskólahátíð í Háskóla Íslands, nýjung, sem Páll Skúlason rektor vill innleiða, það er að í upphafi hvers skólaárs komi starfsmenn skólans saman og hlýði á stefnumarkandi ræður um málefni hans og annað, sem á erindi á slíka hátíð. Þótti mér þetta vel takast, þrátt fyrir að góða veðrið hafi örugglega spillt fyrir aðsókninni. Kom það meðal annars í minn hlut að flytja ræðu á þessari hátíð. Var fróðlegt að bera saman yfirbragðið á hátíð Háskóla Íslands annars vegar og Viðskiptaháskólans hins vegar. Hvor hátíðin var með sínu sniði og allt að sjálfsögðu miklu formfastara í Háskóla Íslands, þar sem prófessorar eru í skikkjum og rektor með sérstakt virðingartákn um hálsinn, gengið er inn og út í skrúðgöngu. Ræður eru skrifaðar og formfastar. Er þannig lögð rækt við hefðir, sem ekki mega hverfa. Í Viðskiptaháskólanum bar það við, að Guðfinna Bjarnadóttir rektor flutti setningarræðu sína blaðalaust og studdist aðeins við minnissetningar á glærum, sem sýndar voru á tjaldi. Þar talaði fulltrúi nemenda einnig á þann veg, að til þess að ná árangri yrði hver og einn að leggja sig fram og þeim mun meira, eftir því sem áfram miðaði í náminu og kröfur ykjust, nýnemar skyldu átta sig á því, að það gæti verið vont fyrst en það ætti eftir að versna! Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands var frekar á þeim nótum, að hið opinbera gerði ekki nóg fyrir námsmenn, námslánin væru ekki nógu og há og ekki væri þess að vænta, að þeir nytu sín sem skyldi, ef ekki yrði betur við þá gert af opinberri hálfu, meira að segja væri ljóst, að fjárveitingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna væri þannig háttað, að gert væri ráð fyrir að námsmenn ynnu með námi. Klukkan 18.45 hófst svo hinn skemmtilegi landsleikur Frakka og Íslendinga, sem áður er getið.