17.4.2014 20:50

Fimmtudagur 17. 04. 14

Sjálfstæðismenn í Reykjavík kynntu í dag stefnuskrá sína vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Stefnuna má sjá hér, hún er mun framsæknari en stefna Samfylkingarinnar þegar litið er til borgaranna sjálfra. Samfylkingin og Besti flokkurinn hafa stjórnað borginni af ótrúlegu tillitsleysi og virðingarleysi fyrir óskum borgaranna og í raun talað niður til þeirra, einkum í skipulagsmálum.

Í þætti Lísu Pálsdóttur á rás 1 var á dögunum rætt við íbúa í Suðurhlíðum sem lýstu hrokafullri framkomu meirihluta borgarstjórnar í sinn garð vegna framkvæmda við Öskjuhlíðarskóla (sem nú hefur fengið nýtt nafn Klettaskóli) í hverfinu. Í þættinum kom fram gagnrýni á ákvarðanir borgaryfirvalda en reiðin beindist ekki síst að aðferðinni við afgreiðslu málsins.

Þetta er alls ekki eina málið sem er þannig vaxið þegar fjallað er um stjórn borgarinnar undir forystu Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar. Yfirlæti og sýndarmennska hefur dugað þeim til að sópa yfir neikvæðu þættina – segir það ekki síst mikla sögu um að yfirborðsleg sýndarmennska má sín meira en ígrunduð afgreiðsla mála að höfðu eðlilegu samráði við þá sem eiga hlut að máli.