6.4.2014 22:20

Sunnudagur 06. 04. 14

Ranghugmyndir hér á landi í umræðum sem tengjast ESB-aðildarmálinu eru á þann veg að ekki er unnt að verjast þeirri hugsun að málið sé í raun of stórt til að menn nái almennt utan um það. Þeir sem hlustuðu á fyrirlestra François Heisbourgs í gær og í fyrradag átta sig betur en áður á ógöngunum sem við blasa vegna evru-kreppunnar. Greining hans hefur leitt til róttækrar niðurstöðu sem er tæknilega framkvæmanleg en vekur ótta meðal stjórnmálamanna sem hafa lagt mikið undir með evrunni.

Ég hef fjallað um skoðanir Heisbourgs hér á síðunni í gær og fyrradag og líkti minnihlutahópnum sem vill aðild Íslands að ESB við hópa sem kenndir eru við öfga í öðrum löndum af því að þeir eru andvígir ESB-aðild og nefndi UKIP í Bretlandi til sögunnar. Um þessa greiningu mína er meðal annars rætt á vefsíðunni Eyjunni í dag og þar segir:

„UKIP er sjálfstæðisflokkur Bretlands, sem hefur undir forystu Nigels Farage sótt mjög frá hægri að Íhaldsflokknum. Aðalmál hans eru að draga Bretland út úr Evrópusambandinu, taka upp flatan skatt og skera niður í ríkisrekstri.“

Þessi skilgreining Eyjunnar á UKIP stenst ekki skoðun eins og svo margt annað sem slegið er fram í þessum umræðum. Má því til staðfestingar vitna í frétt sem birtist á Evrópuvaktinni í dag og lesa má hér.

Að greina flokka inna ESB sem hafa snúist gegn evrunni eða ESB almennt sem hægri flokka er einföldun. Fimm-stjörnu-hreyfingin á Ítalíu er enginn hægri flokkur. Stefnu Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi er ekki auðvelt að mæla með hægri-vinstri stikunni.