8.4.2014 19:00

Þriðjudagur 08. 04. 14

Í Spegli  ríkisútvarpsins var í dag rætt við Gunnar Haraldsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Piu Hansson, forstöðumann Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, um skýrslur stofnana þeirra um stöðu ESB-viðræðnanna. Skýrslan sem Pia ritstýrði liggur undir þungu ámæli vegna þess hve mikið og oft er vitnað í ónafngreinda heimildarmenn. Pia sagði að vinnubrögð sem skýrslan endurspeglar væru almennt stunduð á fræðasviði stofnunarinnar.

Vissulega eru stundaðar svonefndar eigindlegar rannsóknir á félagsvísindasviði þar sem leitað er til fólks með sérfræðiþekkingu á einhverju máli og skoðanir þess birtar (oft nafnlaust)  til að leiða í ljós viðhorf til einhvers máls og síðan dregnar niðurstöður eftir fræðilegum reglum. Að bera slík fræðistörf saman við þann hráa texta sem birtist í skýrslu Alþjóðamálastofnunar felur í sér virðingarleysi fyrir fræðilegum kröfum sem vænta má að gildi innan veggja háskólastofnunar.

Engin sambærileg gagnrýni hefur komið fram á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands enda gefur hún ekki tilefni til hennar. Þá hafa þeir sem að þeirri skýrslugerð komu tjáð sig um niðurstöður í skýrslunni með skýrum málefnalegum rökum.

Hið sama verður ekki sagt um kynningu af hálfu Alþjóðamálastofnunar. Það er ekki forsvaranlegt að segja að efni skýrslunnar ráðist af mati á „andrúmslofti“ í Brussel eins og Pia gerði í sjónvarpsfréttum mánudaginn 7. apríl. Hún bætti um betur í Speglinum þegar hún notaði lokaorðin sem Arnar Páll Hauksson fréttamaður færði henni til að flytja áróður fyrir málstað þeirra sem telja undir Íslendingum komið að leiða ESB-viðræðurnar til lykta.

Að þetta sé áróður má fullyrða vegna þess að ESB stöðvaði viðræðurnar við Íslendinga með kröfu um að íslenska samningsmarkmiðið í sjávarútvegsmálum væri á þann veg að ESB treysti sér til að hefja viðræður um málaflokkinn. Eigi ósk Piu um að viðræðurnar haldi áfram að rætast verður hún að upplýsa hvernig hún vill að Íslendingar slái af skilyrðum sínum í sjávarútvegsmálum. Höfundar skýrslu Alþjóðamálastofnunar reyna að komast framhjá þessari stöðu með tilvitnunum í tvíræðar yfirlýsingar ESB-embættismanna. Að kenna slíkar æfingar við fræðimennsku í félagsvísindum er í besta falli mjög langsótt og eykur ekki virðingu fyrir fræðunum.