13.4.2014 22:10

Sunnudagur 13. 04. 14

Undanfarið hefur páskadagskrá ríkissjónvarpsins verið kynnt á svo ruglaðan hátt að ógjörningur er að átta sig á hvernig þáttum og myndum er raðað á útsendingardaga. Þetta er undarleg aðferð við að kynna dagskrá sem hefur það ekki síst sér til gildis að áhorfendur séu upplýstir um um dag og tíma.

Nú hefur tæknin að vísu leitt til þess að unnt er að horfa á efni sumra sjónvarpsstöðva þegar áhorfandanum hentar innan sólarhrings frá því að efnið er fyrst sett í loftið. Á vefsíðu Símans er þessi þjónusta, tímaflakkið, kynnt á þennan hátt:

„Tímaflakkið gerir þér kleift að horfa á dagskrá sjónvarpsstöðvanna á þeim tíma sem þér hentar. Þú ýtir á i-takkann á fjarstýringunni og getur valið þér dagskrálið allt að sólarhring aftur í tímann, sem eru merktir með grænu spilamerki. Tímaflakkið er í boði fyrir flestar íslensku stöðvarnar og allar þær erlendu sem fylgja grunnáskrift að Sjónvarpi Símans.“

Þar sem viðskiptavinir Símans greiða sérstaklega fyrir aðgang að stöðvum utan grunnáskriftarinnar er einkennilegt að tímaflakkið nái ekki til þeirra.