11.4.2014 20:50

Föstudagur 11. 04. 14

Dagur B. Eggertsson er í vinstri armi Samfylkingarinnar. Hann boðar lausnir í húsnæðismálum Reykvíkinga sem minna á hugmyndir þeirra manna í sósíalista- og jafnaðarmannaflokkum Evrópu sem eru fyrstir til að lenda í vandræðum þegar þeir komast til valda og geta ekki fjármagnað öll loforðin. Ekki einu sinni með því að hækka skatta! Hinn síðasti til að reka sig á þetta er François Hollande Frakklandsforseti. Fylgi flokks hans hrundi í sveitarstjórnakosningum á dögunum og hann hefur nú skipt um forsætisráðherra. Manuel Valls er kallaður Tony Blair franskra sósíalista.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík bregðast við leiguíbúðastefnu Dags og félaga á þennan hátt:

„Pólitíkusar eiga ekki að velja hver fær húsnæði, heldur tryggja að einkaaðilar sjái hag sinn í því að búa til góðan og traustan almennan leigu- og íbúðamarkað í borginni. Samfylkingin hefur boðað stofnun almenns leigufélags til viðbótar við félagsbústaði.

Lausnir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru einfaldar og árangursríkar og hægt er að virkja þær strax. Gerum fólki kleift að búa þar sem það vill, eitt eða í sambúð, enda eru það sjálfsögð réttindi að geta leigt eða keypt á sómasamlegu verði. Okkar markmið er að skapa heilbrigðan og öflugan almennan leigumarkað til framtíðar – ekki að verða leigusalinn þinn.

Fjölgum íbúðum – lækkum leiguverð en ekki á kostnað skattgreiðenda.“

Það væri eftir öðru að árin gegn einkabílnum með Borgartúníð og Hofsvallagötuna  sem táknmyndir yrðu að ofstjórnarárum í þágu leiguíbúða í eigu Reykjavíkurborgar á kostnað skattgreiðenda. Vonandi sporna Reykvíkingar við því með atkvæði sínu.