7.4.2014 22:30

Mánudagur 07. 04. 14

Sérkennilegt er að fulltrúar háskólastofnunar skuli beita vinnubrögðum við ritun skýrslu um stöðu ESB-viðræðnanna sem dygðu ekki til birtingar á frétt í vönduðum fjölmiðli. Oft er vitnað í nafnlausa heimildarmenn sem gefa eitthvað til kynna sem fellur að markmiðum skýrslunnar án þess að réttmæti orða þeirra sé sannreynt á fullnægjandi hátt eða ummælin sett í samhengi við það sem raunverulega hefur gerst.

Í ár eru fimm ár frá því að ESB-umsóknin var samþykkt og margt hefur gerst síðan sem sýnir að óvarlegt er að trúa í blindni og brjóta ekki allt til mergjar sem sagt er af opinberri hálfu hvort sem er í Brussel eða Reykjavík.

Til marks um hvaða áhrif skrif af þessu tagi geta haft má vísa til viðbragða Össurar Skarphéðinssonar sem leiddi ESB-viðræðurnar í strand. Hann segir nú vegna skýrslunnar að ekki sé annað að gera en halda viðræðunum áfram!

Þegar Pia Hansson, ritstjóri skýrslunnar sem forstöðumaður Alþjóðmálastofnunar Háskóla Íslands, er spurð um rökin fyrir að ræða skuli áfram við ESB vísar hún til „andrúmslofts“ sem höfundar skýrslunnar kynntust í Brussel. Blaðamaður sem skrifaði frétt og hefði andrúmsloft sem heimild yrði ekki langlífur í starfi.

Það var einnig með vísan til „andrúmslofts“ sem fræðimaður við Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu að ESB-viðræðunum lyki með samkomulagi árið 2010.