10.4.2014 23:55

Fimmtudagur 10. 04. 14

Í kvöld klukkan 20.00 var ég á fjölmennum fundi á vegum Heimssýnar í Tryggvaskála. Við fluttum þar ræður Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður, Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra, Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, og ég og ræddum hvers vegna skal afturkalla ESB-umsóknina. Eyþór Arnalds stjórnaði fundinum af festu.

Heimssýn eru þverpólitísk samtök og fundurinn endurspeglaði þá staðreynd og þar er samhljómur í andstöðunni við ESB-aðildarumsóknina. Sá er munurinn á þeim sem berjast í samtökum gegn aðild að ESB og hinum sem vilja aðild að hinir síðarnefndu eru tregir til að segja hvað fyrir þeim vakir. Já Ísland er heiti regnhlífarsamstaka þeirra og gefur það ranga mynd af markmiðum samtakanna. Heimssýn er hins vegar réttnefni þar sem innan þeirra samtaka vilja menn líta til heimsins alls en ekki aðeins á ESB.

Þeir sem setja mestan svip á Já Ísland eru sjálfstæðismenn sem hafa allt frá ársbyrjun 2009 orðið undir á landsfundum Sjálfstæðisflokksins þar sem menn hafa þó lagt sig í líma við að koma til móts við sjónarmið þeirra. Eftir landsfundina hafa forráðamenn hópsins ávallt sýnt vanþakklæti sitt fyrir sáttargjörðina og vegið að Sjálfstæðisflokknum á einn eða annan hátt við mikla ánægju fréttastofu ríkisútvarpsins. Hún gefur þeim mikið rými án þess að öll sagan sé sögð.

Mér stendur þetta nærri því að ég hef staðið að sáttatillögum á landsfundum og mælt með samþykkt þeirra þar til á fundinum á síðasta ári. Þá snerust ESB-aðildarsinnarnir gegn öllum tilraunum til sátta og við það herti landsfundurinn á andstöðu flokksins. Nú tala fulltrúar þessara ófriðarmanna í Sjálfstæðisflokknum um að stofna nýjan flokk. Þeir kenna hann hins vegar ekki við ESB-málstaðinn heldur segjast berjast fyrir frjálsum viðskiptum og vestrænni samvinnu!

Heiðarlegur málefnaágreiningur er hluti lýðræðislegra umræðna. Óheiðarlegur málatilbúnaður er ekki aðeins þeim til skammar sem stunda hann heldur ögrun við leikreglur lýðræðisins eins og við höfum kynnst.