22.4.2014 21:30

Þriðjudagur 22. 04. 14

Í hádeginu í dag flutti Livia Kohn fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum Konfúsiusarstofnunarinnar og hét hann á ensku Energy Healing: Daoist Cultivation in the Light of Modern Science.

Livia Kohn var prófessor í trúarbragðafræðum við Boston University, hún hefur doktorspróf frá háskólunum í Bonn og Göttingen í Þýskalandi, fæðingarlandi sínu. Hún vann við rannsóknir við Fairbank Center í Harvard-háskóla og hefur stundað rannsóknir á japönskum trúarbrögðum við rannsóknarstofnanir í Kyoto í Japan. Hún er höfundur nokkurra bóka um taóisma, hugleiðslu og tækni til að auka líkur á langlífi.

Fyrirlestur Kohn í dag snerist um tengslin milli taóisma og langlífis en þar kemur qi gong mjög við sögu. Var fróðlegt að fá úr þessari átt og í háskólafyrirlestri staðfestingu á því sem við höfum lært sem iðkum qi gong. Í raun kom ekkert fram sem hróflar við nokkru sem hér hefur verið kennt á vegum Aflsins, félags qigong iðkenda.

Nú eru rúm 40 ár síðan Richard Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína en í tengslum við heimsóknina heimilaði Maó að fjölmiðlamenn frá Bandaríkjunum kynntu sér hefðbundnar kínverskar lækningar, þar skipar nálastunguaðferðin heiðursess en qi gong er náskylt henni. Á þessum 40 árum hafa þessar aðferðir skotið rótum og hlotið mikla útbreiðslu á Vesturlöndum.