3.4.2014 19:40

Fimmtudagur 03. 04. 14

Í dag var þriggja erinda dagur hjá mér. Þau fjölluðu öll um ólík mál.

Aflinn, félag qi gong iðkenda, hefur efnt til fræðslumorgna og í morgun var hinn síðasti á þessum vetri. Þar flutti Þórir Sigurbjörnsson fyrirlestur um vatnið og qi gong. Karlar eru 60% vatn og konur 55% og þess vegna skiptir miklu að átta sig á viðbrögðum vatns við ólíkar aðstæðr. Viðbrögðin er unnt að mæla með því að skoða kristalla í vatni og Þórir leiddi okkur inn í þennan heim.

Varðberg efndi í hádeginu til fundar um Landhelgisgæslu Íslands og varnartengd verkefni. Þar voru Georg Lárusson forstjóri og Jón Björgvin Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs,  fluttu erindi. Þeir lýstu nýrri vídd í starfsemi gæslunnar sem þróast hefur undanfarin ár eftir brottför bandaríska varnarliðsins. Frá 1. janúar 2011 hefur gæslan annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa Atlantshafsbandalagsins (NATO), rekstri öryggissvæða- og  mannvirkja og samskiptum við stofnanir NATO, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hins vegar samskiptum við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma.

Þetta er í fyrsta sinn sem þessi nýja vídd í störfum landhelgisgæslunnar er kynnt á þennan hátt opinberlega. Borgaralegt hlutverk gæslunnar breytist ekki en samstarf hennar við aðila sem sinna hernaðarlegu öryggi er skipulags- og samningsbundið og fellur innan ramma NATO sem samþykktur var á vettvangi bandalagsins. Þegar litið er á hlut stjórnmálamanna við töku ákvarðana um þessa þróun gæslunnar er það sögulega merkilegt að fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, Össur Skarphéðinsson, og yfirlýsti NATO-andstæðingurinn, Ögmundur Jónasson, tóku ákvarðanir um að færa gæslunni þetta verkefni og skipa því formlega undir stjórn innanríkisráðuneytisins og stofnana á þess vegum. Hefði það komið í minn hlut að standa að því að staðfesta þessa skipan hefðu ýmsir örugglega rekið upp ramakvein um að íslenskur her væri að koma til sögunnar.

Þriðja erindið flutti Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, síðdegis á vegum Miðaldastofu háskólans. Það fjallaði um klaustur heilags Viktors sem stóð rétt utan borgarmúra Parísar og var á 12. öld eitt helsta lærdómssetur síns tíma. Á miðöldum höfðu bæði Íslendingar og Norðmenn nokkur tengsl við klaustrið. Taldi Gunnar hugsanlegt að Þorlákur helgi hefði dvalist þar auk þess sem Helgafellsklaustur kynni að hafa lotið Viktorsreglu á síðmiðöldum.