2.4.2014 19:15

Miðvikudagur 02. 04. 14

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Álfheiður Ingadóttir, tveir fyrrverandi ráðherrar, önnur frá Samfylkingunni og hin frá vinstri grænum setjast í stjórn Landsvirkjunar sem fulltrúar flokka sinna.

Þetta eru einmitt flokkarnir sem leggja áherslu á að „faglega“ skuli staðið að vali á mönnum í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ríkisins. Að þær Þórunn og Álfheiður muni láta „fagleg“ sjónarmið ráða gerðum sínum í þessari stjórn er borin von. Þær hafa sóst eftir setu í stjórninni með þann „faglega“ metnað að leiðarljósi að sérsjónarmið umhverfisverndarsinna sem líta á Landsvirkjun sem óvinveitta stofnun fái notið sín.

Nú þegar nýr meirihluti hefur tekið sæti í stjórn Landsvirkjunar vaknar spurning um hvenær fjármálaráðherra ætli að skipta um stjórn í öðru opinberu hlutafélagi, Isavia. Þetta er fyrirtæki sem skiptir ekki síður miklu fyrir þjóðarhag en Landsvirkjun. Þar situr í formennsku maður sem varla nýtur trúnaðar fjármálaráðherrans eða innanríkisráðherra sem fer með flugmál og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fer með ferðamál.

Isavia á útistöðum vegna kjaramála við starfsmenn á Keflavíkurflugvelli og eru skæruverkföll á næsta leiti, að sögn þeirra sem að þeim standa vegna þess að þeir fá ekki næga áheyrn hjá Isavia. 

Stjórnarformaður Isavia breytti skipan mála á þann veg að hann varð einnig stjórnarformaður Fríhafnarinnar sem stundar samkeppnisrekstur í flugstöðinni. Fráleitt er að þeir sem þann rekstur stunda standi jafnfætis á stjórnsýslulegum grunni gagnvart Isavia við þessar aðstæður. Svar stjórnarformannsins um eigið vanhæfi við töku ákvarðana vegna Fríhafnarinnar er að þrír stjórnarmanna séu ekki vanhæfir! Er þetta til marks um „faglegt“ viðhorf í stjórn Isavia?