9.4.2014 22:00

Miðvikudagur 09. 04. 14

Í dag ræddi ég við Steingrím Erlingsson útgerðarmann í þætti mínum á ÍNN. Hann er að láta smíða þjónustuskip fyrir olíuiðnaðinn og aðra í Noregi. Hefur hann leigt skipið til þjónustu fyrir sýslumanninn á Svalbarða fyrir utan önnur verkefni sem skipið mun sinna. Þá hefur Steingrímur sterkar skoðanir á nauðsyn þess fyrir Íslendinga að láta að sér kveða við norðurslóðaverkefni sem krefjast góðra sjómanna. Hann telur Íslendinga geta skákað Norðmönnum og Færeyingum á þessu sviði einbeiti þeir sér að því og sett verði lög um hæfilegt starfsumhverfi. Steingrímur bendir á að 13% af vergri landsframleiðslu Færeyinga komi frá olíuiðnaði og þjónustu við hann þótt engin olía hafi fundist í færeyskri lögsögu eftir leit í meira en áratug.

Næst er þátturinn á dagskrá kl. 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þegar Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra talaði hann oft illa um norska stjórnmálamenn. Hann taldi þá til dæmis neyða ESB til óhæfilegrar hörku í makríldeilunni. Össur gefur til kynna í bók sinni Ári drekans að Norðmenn hafi viljað spilla ESB-viðræðunum hans.

Nú segir flokksbróðir Össurar, Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að ákvörðun borgaryfirvalda í Osló höfuðborgar Noregs um að gefa Reykvíkingum ekki fleiri jólatré á Austurvöll yfir hátíðirnar áfellisdóm yfir Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Flokkformaðurinn segir á Facebook-síðu sinni:

„Norðmenn og Færeyingar tóku náttúrulega ekkert mark á Evrópustefnunni og gerðu makrílsamninga sín á milli og við ESB án þess að láta Ísland vita. Og eins og það væri ekki nóg, þá bætist þetta við. Vinátta Norðmanna við Ísland er ekki einu sinni eins jólatrés virði, í augum bæjaryfirvalda í Osló.“

Málefnalegu framlagi samfylkingarforkólfa til ESB-umræðnanna eru engin takmörk sett.