18.4.2014 23:07

Föstudagur 18. 04. 14

Heimildarmyndin um sr. Kristin Friðfinnsson í sjónvarpinu í kvöld var raunsönn nærmynd af einlægum guðsmanni. Hún dró einnig athygli að því að víða er glímt við stjórnsýsluleg ágreinings- og viðfangsefni. Sr. Kristinn taldi lögin styðja málstað sinn. Myndin var frumsýnd 12. október 2012 og ágreiningsmálinu sem þar var lýst var ólokið áður en töku myndarinnar lauk. Það hefði átt að setja texta aftan við myndina til að lýsa hvernig málið stendur nú um páska 2014.

Vefsíður gegna mikilvægu og vaxandi hlutverki. Það hefði þó orðið að segja mér tvisvar að yfirmaður herstjórnar NATO í Evrópu mundi nota netið til að mana Rússa í deilunum vegna Úkraínu. Philip Breedlove, hershöfðingi, SACEUR, yfirmaður NATO í Mons í Belgíu, skrifaði á vefsíðu fimmtudaginn 17. apríl undir fyrirsögninni: Hverjir eru mennirnir á bak við grímurnar?:

„Það er erfitt að ímynda sér að grímuklæddur flokkur vopnaðra manna hafi skyndilega stokkið fram úr hópi þess fólks sem býr í austurhluta Úkraínu og skipulega tekið sér fyrir hendur að hertaka opinberar byggingar. Það er erfitt að ímynda sér þetta því að það er einfaldlega ekki satt. Það sem nú gerist í austurhluta Úkraínu er vel skipulögð og útfærð hernaðaraðgerð og við teljum að hún sé framkvæmd að undirlagi Rússa.“

Hér má lesa færslu hershöfðingjans.