1.4.2014 19:00

Þriðjudagur 01. 04. 14

Niðurstaða hefur verið birt í könnun MMR sem Sveinn Andri Sveinsson og félagar stóðu að með furðuspurningunni um stuðning við nýjan flokk ef Þorsteinn Pálsson kynni að koma þar á einhvern hátt við sögu. Tæplega 40 prósent kjósenda myndu íhuga að kjósa slíkt framboð hægrimanna, segir á Eyjunni – orðalagið „myndu íhuga“ bendir til þess að menn séu tilbúnir til að velta málinu fyrir sér sem segir ekkert um hvort þeir ætli að styðja slíkt framboð.

Á Eyjunni er einnig rætt við Þorstein Pálsson þriðjudaginn 1. apríl. Hann segir:

„Þessi spurning hefur vakið meiri forvitni þessa fyrirtækis [MMR] en mína. En þetta hefur engin áhrif á mína afstöðu. Ég hef tekið þátt í þjóðmálaumræðunni í gegnum tíðina og mun gera það áfram án þess að bjóða mig aftur fram til þings. Ein skoðanakönnun breytir engu til eða frá um það, þær koma og fara eins og allir vita.“

Spurningin var svo óljóst orðuð hjá MMR að ekki er ljóst hvort það er skilyrði fyrir stofnun hins nýja hægri flokks Sveins Andra að Þorsteinn Pálsson bjóði sig fram til þings. Það kemur væntanlega í ljós í frekari samtölum fjölmiðlamanna við Svein Andra en þeir hafa nú þegar rætt spurninguna um nýjan hægri flokk við hann í um það bil fjögur ár. Góða skemmtun!