21.4.2014 22:40

Mánudagur 21. 04. 14

Umræðurnar um framboðsmál Framsóknarflokksins í Reykjavík hafa svalað þörf fréttastofu ríkisútvarpsins fyrir pólitískum fréttum. Guðni Ágústsson heldur þannig á málum að álykta má að meiri spurn sé eftir honum en framboð. Framsóknarmennirnir í borginni bíða eftir svari hans milli vonar og ótta. Gefi Guðni ekki kost á sér blasir við algjör auðn því að haldið hefur verið á málum á þann eftir að Óskar Bergsson hvarf úr fyrsta sætinu vegna fylgisleysis að öðrum frambjóðendum er nóg boðið.

Í fréttum kvöldsins sagði:

„Kjördæmasamband Framsóknarflokksins í Reykjavík vill að Guðni Ágústsson leiði listann í borginni. Guðni hefur notað páskana til að taka ákvörðun og ætlar að tilkynna hana á sumardaginn fyrsta.“

Verði Guðni ekki í framboði er ólíklegt að Framsóknarflokkurinn komi saman lista í Reykjavík.

Það er eftir öðru að einhver álitsgjafi telur Framsóknarflokknum til framdráttar að yfir páskana hafi daglega verið sagt frá framboðsraunum hans í höfuðborginni. Fyrir kosningar til alþingis fyrir ári ákvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flokksformaður að hætta við framboð í Reykjavík af ótta við að ná ekki kjöri vegna fylgisleysis fokksins.