15.4.2014 20:00

Þriðjudagur 15. 04. 14

Dr. Richard North var nýlega hér á landi og flutti meðal annars fyrirlestur í Háskóla Íslands á vegum Evrópuvaktarinnar, RNH og Alþjóðamálastofnundar þar sem hann lýsti hugmynd sinni um að Bretar segðu sig úr ESB og yrðu aðilar að evrópska svæðinu. Rökstuðningur hans var skýr og sannfærandi. Hann lagði tillögu sína síðan fram í keppni á vegum IEA í London um Brexit, það er úrsögn Breta úr ESB.

Dr. North sigraði ekki í keppninni og komst ekki í hóp hinna sex sem valið stóð á milli að lokum. Hann hefur hins vegar tekið sér fyrir hendur að skilgreina tillögur þeirra sem hlutu náð fyrir augum dómnefndarinnar og bendir á að enginn þeirra hafi mælt með aðild að evrópska efnahagssvæðinu þótt allir leggi til að EFTA-aðild komi í stað ESB-aðildar en Bretar eigi jafnframt aðild að hinum sameiginlega markaði ESB. Þrjú EFTA-ríki: Ísland, Liechtenstein og Noregur eiga aðild að þessum markaði í gegnum EES-samninginn. Sviss, fjórða EFTA-ríkið, hefur samið beint við ESB án þess að EFTA komi þar nokkuð við sögu en það gegnir veigamiklu hlutverki við framkvæmd EES-samningsins.

North veltir því réttilega fyrir sér hvernig framkvæma eigi tillögur verðlaunahafans og annarra sem vilja Breta inn í EFTA með aðgangi að sameiginlega markaðnum. Ef þeir eigi að fara sömu leið og Svisslendingar þurfi þeir ekki að fara inn í EFTA og fari þeir í EFTA hljóti leið þeirra að sameiginlega markaðnum að vera um EES.

Hér má lesa hugleiðingar Richards Norths um þetta efni.