25.4.2014 23:40

Föstudagur 25. 04. 14

Verslunarskóli Íslands er vinsælastur þetta árið hjá tíundu bekkingum landsins. Alls óskuðu 699 eftir skólavist við skólann í haust en 308  fá hana. Næst flestar umsóknir eru um skólavist við Menntaskólann við Hamrahlíð. Sækjast 674 tíundu bekkingar eftir því að komast í skólann sem tekur við 260 nýnemum i haust. Þriðju flestar umsóknir voru um skólavist í Kvennaskólanum í Reykjavík. Þar sækjast 603 eftir því að hefja nám 240 fá skólavist.

Um árabil hefur Verslunarskólinn verði vinsælastur eða í röð vinsælustu framhaldsskólanna. Hann á langa og glæsilega sögu og sannar að skóli í höndum einkaaðila skilar frábærum árangri og nýtur mikilla vinsælda.

Skólastarf á þessum rekstrargrunni ber að efla á öllum skólastigum.  Um það er nauðsynlegt að skapa samstöðu meðal stjórnmálamanna og innan stjórnsýslunnar. Því miður hefur verið stigið skref til baka í því efni síðustu ár og ekki ber á mikilli viðleitni hjá núverandi ríkisstjórn að efla einkarekstur á kostnað ríkisreksturs, því miður.

Nýjasta dæmið um ógöngur ríkisreksturs eru endurtekin verkföll starfsmanna ISAVIA, rof flugsamgangna til og frá landinu og innan lands. ISAVIA er hlutafélag í opinberri eigu. Væru flugstöðvar og flugvellir einkareknir kæmi ekki til deilna af þessu tagi.

Eina rétta svar ríkisvaldsins við óbilgirni starfsmanna ISAVIA er losa sjálft sig úr stöðu viðsemjenda með því að bjóða út starfsemina á flugvöllum landsins og fela einkaaðilum allan  rekstur þar sem fellur ekki undir lög- og tollgæslu. Fordæma í þessu efni er að finna í öllum nágrannalöndunum.