29.4.2014 20:40

Þriðjudagur 29. 04. 14

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er leitað eftir svörum við spurningu sem Gísli Marteinn Baldursson lagði fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur í sjónvarpsþætti sínum sunnudaginn 27. apríl þar sem hann gaf til kynna að einhverjir teldu gott „að grisja“ Sjálfstæðisflokkinn. Spurningin varð til þess að Ragnheiður flutti reiðilestur um Davíð Oddsson, ritstjóra og fyrrverandi flokksformann. Í leiðaranum er óskað eftir að Ragnheiður finni orði Gísla Marteins og eigin lýsingu stað.

Þau hljóta bæði að benda á „sökudólginn“ og hvar þessi ummæli féllu.

Á leiðarasíðu Fréttablaðsins birtist í dag teikning sem er í þessum sama dúr. Virðist hún eiga að sýna okkur Davíð Oddsson og Styrmi Gunnarsson banna einhverjum, kannski Ragnheiði, að greiða atkvæði.

Bæði framganga Gísla Marteins og teiknarans, hver sem hann er, bera í sér mun meiri heift og tilraun til að afflytja það sem sagt er í opinnberum umræðum en við þrír sem virðumst vera á teikningunni höfum nokkru sinni tíðkað. Þessi framganga sýnir að því fer víðs fjarri að umræðuhefð sé að breytast til batnaðar. Þvert á móti eru árásir á þá sem kveða sér hljóðs á opinberum vettvangi persónulegri, ómálefnalegri og dónalegri en tíðkaðist fyrir fáeinum árum eða áratugum.

Á sínum tíma leit ég á upptöku af samtali Gísla Marteins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og hef ekki séð ástæðu til að horfa á annað sem þar er í boði á sunnudagsmorgnum. Í leiðara Morgunblaðsins er mannvali og efnistökum lýst á þennan veg:

„Í fréttum „RÚV“ var sagt frá því að í þætti stofnunarinnar á sunnudag hefðu Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ólafur Stephensen verið fengin til að ræða afstöðu sjálfstæðismanna til ESB frá öllum hliðum. Það var lipurlega til fundið og verður varla slegið nema í næsta þætti verði Gísli fenginn til að ræða við Martein um helsta mun á þríhjóli og tvíhjóli.“