12.4.2014 22:10

Laugardagur 12. 04. 14

Í dag skrifaði ég frétt á Evrópuvaktina um Alþjóðadómstólinn í Haag og hvalveiðar Japana í Suðurhöfum sem dómstóllinn hefur bannað af því að áætlunin um vísindaveiðar á hvölum var ekki nógu vel úr garði gerð. Í fréttinni segir að japanskir skattgreiðendur hafi staðið straum af veiðunum. Í japanska fjármálaráðuneytinu séu menn ekki ósáttir við dóminn frá Haag, hann auðveldi japönskum stjórnmálamönnum að takast á við þrýstihóp hvalveiðimanna enda hafi japanska ríkisstjórnin tilkynnt skömmu eftir að dómurinn féll að suðurhafaveiðunum væri hætt. Ólíklegt sé að ný vísindaáætlun verði gerð vegna kostnaðarins og minnkandi neyslu á hvalkjöti.

Í fréttinni segir að harðlínumenn á Japansþingi vilji bregðast við dóminum með því að segja sig undan alþjóðalögum með úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ólíklegt sé að það gerist vegna deilna Japana við Kínverja og Suður-Kóreumenn um eyjar og lögsögu umhverfis þær en þar vilja Japanir að alþjóðalög séu virt.

Við vinnslu fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér þegar alþingi samþykkti í sjávarútvegsráðherratíð Þorsteins Pálssonar að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu af því að þar væri enginn skilningur á málstað Íslendinga eða annarra hvalveiðiþjóða. Ef ég man rétt vorum við Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins sáluga, einu þingmennirnir á móti þessari ályktun. Mín skoðun var að vinna yrði að málstað Íslendinga í samræmi við alþjóðalög, þau væru að lokum besta skjól smáríkja.

Eftir nokkurra ára veru utan Alþjóðahvalveiðiráðsins án þess að hvalveiðar hæfust var ákveðið að ganga í ráðið að nýju með fyrirvara gagnvart banni ráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni enda stundar Hvalur þær nú.

Dómurinn yfir Japönum vegna veiðanna í Suðurhöfum hefur ekki áhrif hér að alþjóðalögum. Sea Shephard hvalavinirnir þurfa hins vegar ekki lengur að senda menn og skip á vettvang til að trufla veiðar Japana og kunna því að snúa sér að okkur og Norðmönnum.

Ákvörðunin um að segja Íslendinga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu samrýmdist ekki baráttu gegn  einangrunarhyggju og fyrir þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.