27.6.2000 0:00

Þriðjudagur 27.6.2000

Klukkan 14.00 kom frú Deng, aðstoðarvísindaráðherra Kína, í heimsókn til mín en hún dvaldist hér í nokkra daga með sendinefnd og heimsótti einkum vísinda- og rannsóknarstofnanir. Ekki var síst merkilegt að hitta frú Deng, þar sem hún er dóttir þess Dengs, sem var alráður í Kína á síðasta áratug og innleiddi þar hið tvöfalda kerfi, það er kapítalisma með sósíalisma með þeim orðum, að það væri sama hvort kötturinn væri svartur eða hvítur, ef hann veiddi mýs. Deng var lengi í kör og mátti ekki mæla með þeim hætti, að allir skildu, varð dóttir hans helsti tengiliður hans við umheiminn, þar sem hún skildi muldur föður síns og túlkaði fyrir öðrum. Spurði ég frú Deng, hvort hún hefði gegnt þessu hlutverki. Hún sagði yngri systur sína einkum hafa hjúkrað og sinnt föður þeirra, því að sjálf hefði hún verið önnum kafin við ráðherrastörf, en þó hefði hún einnig komið hér við sögu. Þá staðfesti hún, að faðir sinn hefði verið mikill briddsspilari, auk þess sem hann hefði haft yndi af því að stunda sund. Sagði frúin, að systir sín hefði ritað sögu föður þeirra á tímum menningarbyltingarinnar, en þá var hann sviptur öllum völdum og mátti þola ofsóknir af völdum fjórmenningarklíkunnar, sem laut forystu eiginkonu Maós formanns. Væri bókin væntanleg á ensku.