7.2.2012

Þriðjudagur 07. 02. 12

Í morgun hélt Jón Magnússon hrl. uppi vörnum fyrir mig í hinu furðulega máli sem Jón Ásgeir Jóhannesson hefur höfðað gegn mér vegna ritvillu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi sem hefur verið leiðrétt með afsökun minni. Fyrir Jóni Ásgeiri vakir fyrst og fremst að þagga niður í öllum sem tala ekki um hann opinberlega eins og hann vill; í öðru lagi finnst honum þjóna sérstökum tilgangi að ná þessu markmiði með því valda mér óþægindum – það lýsir ekki miklum stórhug að nota prentvillupúkann í þessum tilgangi.

RÚV sagði ekki rétt frá málavöxtum í hádegisfréttum, ég hringdi í fréttastofuna og bað um leiðréttingu. Ég hef ekki heyrt hana flutta í fréttatíma.

Eftir að hafa horft á Helga Seljan ræða við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í Kastljósi kvöldsins datt mér í hug það sem Haukur Ingi Jónasson sagði við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Sunnudagsmogganum 5. febrúar. Haukur Ingi sagði:

„Þar [í íslenskri fjölmiðlastétt] er mikið af fordómafullu ungu fólki sem býr yfir litlu innsæi. Það svífst einskis, sem getur verið nokkur kostur, en höfuðgallinn er að það skautar oft yfir það sem máli skiptir vegna þess að það sér það ekki. Í fréttaflutninginn skortir yfirlegu, ígrundun, rökvísi, siðfágun og það að taka næsta skrefið.“

Undir lok þáttarins ætlaði Helgi Seljan að slá Ögmund út af laginu með því að líkja honum við Geir H. Haarde og gera hann með því að einskonar ómerkingi. Þessi lúalega framkoma sló Ögmund ekki út af laginu, hann sagðist einfaldlega hafa svarað spurningum Helga. Geir H. Haarde hefur einnig setið fyrir svörum í Kastljósi. Helgi sannaði með framkomu sinni að markmið Kastljóss er ekki að upplýsa áhorfendur með því að kalla á fólk til samtals heldur að setja viðmælendur upp að vegg að geðþótta þess sem spyr hverju sinni.