25.2.2012

Laugardagur 25. 02. 12

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ítrekar á vefsíðu sinni í kvöld að það beri að ákveða lokadagsetningu viðræðna við ESB. Hann segir:

Lagt er til að viðræðum við ESB verði hraðað. Dagsetning ákveðin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta lagi undir lok þessa kjörtímabils. Samninganefndum okkar og ESB verði gerð grein fyrir því að þetta afmarki þann tímaramma sem þær hafi til að fá efnislegar niðurstöður í þeim málaflokkum sem helst varða okkar hag.

Það er borin von að ríkisstjórn með aðild Samfylkingarinnar samþykki þessa tillögu. ESB lítur á hana sem móðgun við sig, Í Brussel líta menn þannig á að þeir ráði efni og hraða viðræðnanna við ESB.

Þórir Ibsen, sendiherra gagnvart ESB, segir í samtali við ritstjóra vefsíðunnar EurAktiv föstudaginn 24. febrúar að Íslendingar séu ekki að hraðleið heldur sanngjarnri leið inn í ESB. Sendiherrann veit hvernig á að tala við ESB en ekki ráðherrann sem vill að Brussel-mönnum verði stillt upp við vegg. Kafla úr viðtalinu má lesa hér.

Viðtal mitt á ÍNN við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, er komið á netið og má skoða hér.