24.2.2012

Föstudagur 24. 02. 12

Það er með ólíkindum að látið sé að því liggja að einhverjir aðilar sem hafi hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu eða höfðu slíkra hagsmuna að gæta fyrir hrun standi að því að bola Gunnari Þ. Andersen úr stöðu forstjóra fjármálaeftirlitsins (FME).

Stjórn FME er skipuð trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands. Það er fráleitt að ætla að stjórnarmenn taki ákvörðun um starfslok forstjóra án samráðs við umbjóðendur sína. Steingrímur J. Sigfússon ber ábyrgð á stjórnarformanni FME sem efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann keppist við að telja fólki trú um að hann hafi ekkert vitað um ákvörðun stjórnarinnar. Málið var þó rætt við hann um sama leyti og Gunnari voru kynnt starfslokin. Hver trúir því að aðstoðarseðlabankastjóri, stjórnarmaður í FME, hafi ekki rætt málið við Má Guðmundsson?

Engin haldbær skýring hefur borist á því hvers vegna stjórn FME lét ekki sitja við álit Andra Árnasonar hrl. um hæfi Gunnars Þ. til að gegna forstjórastarfinu heldur kallaði til tvo aðra menn til að gefa álit sitt. Ástráður Haraldsson hrl. var annar þessara manna en hann var formaður landskjörstjórnar þegar stjórnlagaþing var kjörið. Hæstiréttur ógilti kosninguna vegna þess hve illa var staðið að framkvæmd hennar.

Á meðan athygli beinist ekki að umbjóðendum stjórnarmanna FME heldur að samsæri ónafngreindra mann í fjármálalífinu eru umræður um uppsögn Gunnars Þ. á villigötum. Spurningin er þessi: Hvers vegna vilja fulltrúar ráðuneytis og seðlabanka losna við forstjóra FME?