10.2.2012

Föstudagur 10. 02. 12

Fanný og Alexander í Borgarleikhúsinu er glæsileg sýning og margbrotin. Skemmtilegt er að sjá hvað hún nýtur mikilla vinsælda, mikil eftirspurn kallar á að sýningum sé fjölgað frá upphaflegri auglýsingu. Ein slík var fyrir fullu húsi í kvöld við góðar undirtektir.

Skoðanakönnun í Fréttablaðinu sem birt er í dag sýnir að Samstaða, nýr flokkur Lilju Mósesdóttur, tekur forystu meðal flokkanna vinstra megin við miðju. Fylgið hrynur af Samfylkingu og VG. Of fáir taka afstöðu til að könnunin sé marktæk um fjölda þingmanna, hún sýnir hins vegar að með framboði sínu hefur Lilja valdið miklu uppnámi í röðum vinstri manna. Flokkur Guðmundar Steingrímssonar nær sér ekki á strik enda hefur hann ekki birt neina stefnu og lætur eins og um starfsemi hans eigi að gilda önnur lögmál en um stjórnmálaflokka almennt.

Jóhanna Sigurðardóttir dregur ekki að nein atkvæði, meira að segja Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi hennar, getur ekki breytt því. Hlutverk hans sýnist helst felast í því að koma í veg fyrir að fréttir berist af Jóhönnu eða yfirlýsingum hennar. Hún sagði til dæmis að alþingi væri óheimilt að afturkalla landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde. Reyndist hún þar ganga þvert á skoðun sjálfs saksóknarans í málinu, Sigríðar Friðjónsdóttur. Þá sagði Jóhanna að álögur ríkisins á bensín hefðu hækkað um 3 krónur eftir áramót en Runólfur Ólafsson hjá FÍB leiðrétti hana og sagði að hækkunin hefði verði 6,42  kr. Fréttastofa RÚV flytur dag eftir dag fréttir af því ef einhverjar stofnanir ríkisins teljast ekki standa sig nægilega vel við þetta eftirlit eða hitt. Fréttastofan lætur hins vegar eins og það sé smámál ef forsætisráðherra er dag eftir dag staðinn að því að skýra rangt frá staðreyndum.