Miðvikudagur 15. 02. 12
Áhugamenn um efnisval í Spegli RÚV ættu að velta fyrir sér hverjir hefðu verið kallaðir til að útmála ríkisstjórn með þátttöku Sjálfstæðisflokksins hefði hún fengið þá útreið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk í hæstarétti í dag þegar dómur féll um að ákvæði í lögum hennar um afturvirka innheimtu vaxta bryti í bága við stjórnarskrána. Ekkert var rætt um málið í Speglinum og Helgi Hjörvar, formaður efnahagsnefndar alþingis, reyndi að blekkja útvarpshlustendur með því að segja í fréttum að 4 dómarar hefðu lagst gegn lagaákvæðinu en 3 stutt það, þetta væri því umdeilt meðal lögfræðinga. Dómurinn var hinn vegar 7:0 þeirrar skoðunar að afturvirk vaxtaákvæði brytu í bága við stjórnarskrána. Hvers vegna komst Helgi upp með þessa rangfærslu í fréttatímum? Hann var sagður hafa skroppið út af þingnefndarfundi til að ræða við fréttamanninn – var málið rætt á þessum vitleysu forsendum undir stjórn hans þar?
Ríkisstjórnin sagði í upphafi ferils síns fyrir þremur árum að hún ætlaði að slá skjaldborg um heimilin til að verja þau gegn of þungum byrðum vegna hruns bankanna. Nú hefur lagaákvæði sem hún setti að eigin sögn í þeim tilgangi að styrkja skjaldborgina verið dæmt bæði of íþyngjandi fyrir hóp skuldara og auk þess að brjóta gegn stjórnarskránni.
Egill Helgason telur að Eiríkur Jónsson hafi gert of mikið úr fundi Egils, Helga Seljans, Hallgríms Helgasonar og Jóhanns Haukssonar í Kaffifélaginu að morgni 1. febrúar og segir mig haldinn „þráhyggju“ vegna málsins. Egill taldi mig á dögunum hafa Baugsfeðga „á heilanum“. Ég met mikils umhyggju Egils fyrir andlegri heilsu minni, hitt er óvenjulegt að álitsgjafi ræði á þennan veg um þátttakendur í umræðum líðandi stundar. Hvers vegna grípur Egill til þessa ráðs?