14.2.2012 14:00

Þriðjudagur 14. 02. 12

Furðulegt var að sjá hve Helgi Seljan brást illa við í Kastljósi kvöldsins þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti á hvers vegna hann sæti enn fyrir svörum um mál sem hefði verið fyrir löngu upplýst af sinni hálfu og að því er hann varðaði. Bjarni sagði að DV hefði birt 450 greinar um málið á undanförnum árum og sakað sig án nokkurra raka um allt milli himins og jarðar í því. Markmiðið væri að vega að Sjálfstæðisflokknum og árásirnar hefðu að nýju farið af stað eftir að tillaga sín um afturköllun á landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde náði fram að ganga. Þá hefði Hallgrímur Helgason rithöfundur gengið fram fyrir skjöldu með grein í DV sem hefði beinlínis sett málið í pólitískt samhengi.

Þegar Bjarni minntist á Hallgrím tók Helgi kipp og gaf til kynna að nú væri sér nóg boðið. Bjarni hefði átt að minna Helga á kaffifélagsfundinn sem hann sat með Hallgrími, Agli Helgasyni og Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, að viðstöddum Eiríki Jónssyni skrásetjara 1. febrúar 2012. Þegar Helgi spurði Bjarna hvað hann hefði gert við peningana sem hann fékk fyrir hlutabréf sín í Glitni banka hefði verið vel við hæfi að Bjarni spyrði Helga hvað hefði gerst á kaffifélagsfundinum.

Lágkúran í þessum viðtölum Helga er slík að undrun vekur að menn samþykki að taka þátt í þeim. Ástæðan fyrir samþykkinu er einföld: Hönnuð er atburðarás meðal annars í fréttatímum RÚV sem er á þann veg að það er lagt út á hinn versta veg ef menn mæta ekki í viðtalið. Þessi fréttakúgun þar sem tengdar eru saman innistæðulausar ávirðingar í DV og margtuggðar fréttir í RÚV er þess eðlis að sæmir engum, síst af öllu RÚV sem hefur skýrar lögbundnar skyldur.

Helga Seljan varð tíðrétt um hvort Bjarna þætti þetta eða hitt siðlegt miðað við setu hans í stjórnum fyrirtækja fyrir hrun. RÚV lýtur stjórn sem opinbert hlutafélag. Spurning er hvort þeim sem þar sitja þyki siðlegt að láta hjá líða að sporna við óheillaþróuninni í Kastljósi og hjá fréttastofu RÚV sem birtist í aðferðum fréttakúgunarinnar.