18.2.2012

Vefsíða í 17 ár - tvískinnungur í ESB-viðræðum

Hinn 19. febrúar 2012 eru 17 ár liðin frá því að ég setti í fyrsta sinn efni hér á síðuna eins og sjá má ef farið er í pistlana en í hinum fyrsta þeirra sagði ég frá fundi sjálfstæðismanna um upplýsingatæknina. Í tilefni af afmæli síðunnar í áranna rás hef ég svo oft sagt frá upphafi hennar og þróun að ég sleppi því að þessu sinni. Hún hefur verið hýst hjá Hugsmiðjunni undanfarin ár og tekist hefur að varðveita efni hennar allt frá fyrsta degi. Einstaka sinnum hef ég leiðrétt efni á síðunni eftir að það birtist þar en þá jafnan augljósar villur eða ég hef farið að ábendingum um eitthvað sem má betur fara.

Ég hef ekki talið saman hve margir hafa skoðað efni á síðunni frá upphafi. Hún reynist mér hins vegar vel sem geymslustaður um það sem á daga mína hefur drifið á þessum 17 árum. Því fer hins vegar víðs fjarri að á síðunni sé allt að finna sem ég hef skrifað á þessum 17 árum. Frá því í apríl 2010 hef ég til dæmis skrifað þrjá leiðara í viku á Evrópuvaktina, vefsíðu sem við Styrmir Gunnarsson höldum úti um málefni tengd Evrópusambandinu og fleiri þáttum. Á þá síðu hef ég einnig skrifað fjölmarga pistla án þess að þeir séu hér á þessari síðu. Auk þess hef ég skrifað reglulega í tímaritið Þjóðmál sem kom fyrst út haustið 2005 og síðan fjögur hefti á ári til þessa dags undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Í hvert hefti Þjóðmála hef ég skrifað fastan dálk af vettvangi stjórnmálanna en auk þess umsagnir um bækur eða greinar um annað efni.

Ég hef gert ráðstafanir til þess að Borgarskjalasafnið varðveiti síðuna eftir að ég hætti að annast hana en safninu ætla ég einnig að afhenda skjöl mín og verða þar þá skjöl fulltrúa þriggja ættliða sem létu að sér kveða í stjórnmálum á 20. öldinni og fram á þá 21., Benedikts, afa míns, föður míns auk skjala minna. Skjöl þeirra Benedikts og Bjarna verða aðgengileg á netinu og eru það að verulegu leyti núna þótt enn eigi starfsmenn safnins eftir að skanna mikið efni. Framtíðin ein ræður hvernig þetta mikla gagnamagn mun nýtast þeim sem í það rýna.

Óráðið er hve lengi ég held áfram að skrifa á síðuna. Á þessum 17 árum hefur skrásetning á hana orðið svo snar þáttur í daglegu lífi mínu að það verða nokkur viðbrigði þegar ég ákveð að snúa mér að öðru.

Á póstlista síðunnar eru nú rúmlega 2000 manns og fari ég á mannamót hitti ég oft fólk sem tekur mig tali og segist fylgjast reglulega með því sem ég hef að segja. Vil ég þakka þá velvild sem mér er gjarnan sýnd af því tilefni og einnig hollustu þeirra sem hafa verið árum saman á listanum.

Hin síðustu misseri hef ég einkum helgað mig athugunum og skrifum sem tengjast ESB-aðildarumsókn Íslands. Ég tel að þar sé annars vegar um yfirborð hinnar opinberu stefnu ríkisstjórnar Íslands að ræða og hins vegar raunsanna mynd um stöðu viðræðnanna og ástandið innan Evrópusambandsins og sérstaklega á ervu-svæðinu.  Á þessu tvennu er ekki aðeins stigsmunur heldur einnig eðlismunur.

Eins og þeir sjá sem lesa síðu mína hef ég borið mikla virðingu fyrir íslenskri stjórnsýslu og þeim sem við hana starfa. Á þetta rætur að rekja til uppeldis míns og kynna af stjórnarráðinu allt frá því ég var barn að aldri. Um fimm ára skeið, 1974 til 1979, starfaði ég sem embættismaður í forsætisráðuneytinu. Frá 1995 til 2009 var ég ráðherra með rúmlega árs hléi.

Í tíð minni í forsætisráðuneytinu var síðasta þorskastríðið, vegna 200 mílnanna, háð og þá var einnig hart tekist á um stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum. Þá áttaði ég mig á því hve miklu skipti í slíkum deilum að fyrir Íslands hönd héldu menn fast á sínum málstað og létu ekki deigan síga þótt við ofurefli virtist að etja, semdu ekki við sjálfa sig fyrst til að komast hjá árekstrum vegna eigin ímyndunar um afstöðu viðmælandans. Í landhelgismálinu var ekkert skref stigið án náins samráðs stjórnar og stjórnarandstöðu og samningamenn Íslands sátu fyrir svörum í landhelgisnefnd sem starfaði á vegum forsætisráðuneytisins og gegndi ég þar meðal annars ritarastörfum.

Fjölmiðlar fylgdust náið með hverju skrefi sem stigið var og harðar umræður fóru fram fyrir opnum tjöldum á alþingi þar sem spilin voru lögð á borðið. Ég starfaði náið með æðstu embættismönnum utanríkisráðuneytisins og hafði mikið samband við Kenneth East, sendiherra Breta. Kom hann meðal annars til kvöldverðar heima hjá mér áður en hann fór úr landi eftir að stjórnmálasambandinu var slitið, urðum við persónulegir vinir en Kenneth er enn á lífi, kominn á tíræðisaldur. Í tíð minni sem menntamálaráðherra tók ég viðtal við hann í sjónvarpi um þessa tíma.

Í ljósi þessarar reynslu og hinna hörðu átaka um aðildina að evrópska efnahagssvæðinu á árunum 1991 og 1992 eftir að ég settist á alþingi og tók við formennsku í utanríkismálanefnd þingsins finnst mér dapurlegt að fylgjast með því hvernig rætt er um ESB-aðildarumsóknina á alþingi og af hálfu þeirra sem eru málsvarar Íslands í málinu. Ég er þeirrar skoðunar að himinn og haf sé á milli þess sem haldið er að okkur undir forystu Össurar Skarphéðinssonar og hans manna og þess sem íslensk stjórnvöld verða raunverulega að gera að kröfu ESB til að halda lífi í aðildarviðræðunum.

Þessi leikaraskapur hófst strax og Össur og félagar neituðu að viðurkenna opinberlega raunverulegt eðli ESB-viðræðnanna, að þær snerust um hvernig Íslendingar ætluðu að laga sig að lagabálki ESB en ekki um að kanna hvað væri í boði og síðan samþykkja það eða hafna. „Cover up“ er hættulegt og skaðar gjarnan þann sem stundar það. Næsti bær við feluleikinn er hroki og yfirlæti gagnvart þeim sem vill komast að hinu sanna.

Eftir að Steingrímur J. Sigfússon fór til Brussel 25. janúar sl. beitti hann dónaskap á alþingi til að komast hjá að svara spurningum um hvað gerðist á fundum hans þar. Eftir að Jóhanna Sigurðardóttir hitti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, 11. júlí 2011 og sagðist hafa kynnt samningsmarkmið Íslands í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum sagðist Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ætla að skrifa Jóhönnu bréf til að fá uppgefið hvað Jóhanna hefði sagt við Merkel. Jón var rekinn úr ríkisstjórninni áður en hann fékk svarið. Þegar Össur Skarphéðinsson er spurður um afskipti utanríkisráðuneytisins af því að hér var opnuð Evrópustofa 21. janúar 2012 víkur hann niðrandi athugasemd að þingmanninum sem spyr, Vigdísi Hauksdóttur.

Nú er svo komið að ástæðulaust er að trúa því sem frá stjórnvöldum kemur um stöðu ESB-viðræðnanna. Þetta er dapurleg staðreynd. Hitt er þó enn verra að á bakvið tjöldin eru viðræðumenn Íslands að móta samningsmarkmið í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum án lofaðs samráðs við hagsmunaaðila.

Tilgangurinn er að markmiðin hafi ekki að geyma neitt sem fellur ekki að ramma ESB hvað sem líður samningsumboðinu frá alþingi. Viðræðumennirnir vilja ekki lenda í þeirri stöðu að um þá verði sagt að þeir hafi slegið of mikið af til að ná samkomulagi við ESB. Að fyrirlagi utanríkisráðherra hafa þeir þess vegna tekið að semja við sjálfa sig um markmiðin áður en þeir kynna þau fyrir ESB. Hvenær skyldu markmiðin verða kynnt opinberlega? Er ekki tímabært að þjóðin fái að vita um þau?
Að mínu áliti er staðan í ESB-viðræðunum til marks um að undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hafi stjórnsýslu innan stjórnarráðsins hrakað mikið þegar brýnt hagsmunamál þjóðarinnar er á döfinni.