4.2.2012

Laugardagur 04. 02. 12

Líklega horfi ég nú orðið meira á DR 1, danska ríkissjónvarpið, en hið íslenska. Mynda- og þáttavalið þar fellur mér mun betur en í RÚV. Silfur Egils fer einhvern veginn alltaf framhjá mér og sárasjaldan er nefnt við mig að ég þurfi að sjá eitthvað sem þar var sýnt.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er birtur kafli úr Spegli rásar 1 á RÚV um þýsk stjórnmál og stöðu Frjálsra demókrata þar sem sýnir að í þann þátt er ekkert að sækja, að minnsta kosti ekki um þýsk stjórnmál. Dæmið sem blaðið birtir sýnir að fyrir höfundi pistilsins vakir frekar að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína á Íslandi en lýsa því sem leitt hefur vandann yfir Frjálsa demókrata í Þýskalandi. Einfalda staðreyndin um vandræði flokksins er að Guido Westerwelle sem leiddi hann til sigurs í síðustu sambandsþingskosningum reyndist gjörsamlega misheppnaður þegar á hann reyndi sem utanríkisráðherra. Hann var settur af sem formaður og flokkurinn er í sárum vegna innan meina.

Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við dr. Hauk Inga Jónasson í Sunnudagsmogganum 5. febrúar. Hann segir meðal annars:

„Íslenskir fjölmiðlar eru annað merkilegt mál. Í mínum huga er góður blaða- og fjölmiðlamaður einstaklingur með sterkan karakter sem er þrautþjálfaður í að rýna af rökvísi í málefni, sjá þau í hlutlægu ljósi, og er fær um að draga skynsamlegar ályktanir á grundvelli upplýsinga og innsæis. Í íslenskri fjölmiðlastétt eru of margir ekki færir um þetta. Þar er mikið af fordómafullu ungu fólki sem býr yfir litlu innsæi. Það svífst einskis, sem getur verið nokkur kostur, en höfuðgallinn er að það skautar oft yfir það sem máli skiptir vegna þess að það sér það ekki. Í fréttaflutninginn skortir yfirlegu, ígrundun, rökvísi, siðfágun og það að taka næsta skrefið. Oft les maður hálfkaraðar fréttir sem stimplaðar eru þótta unglingsins, og lesandinn spyr sig - ef hann þá spyr sig, og þar er hættan - Hvað svo? Hvað merkir þetta? Hvernig á að túlka þetta? Ég tel að íslenskir blaða- og fjölmiðlamenn ættu að setja markið hærra og miða sig faglega við rótgróna fjölmiðla á borð við New York Times.“

Ég er Hauki Inga sammála og þess vegna hallast ég ekki aðeins æ meira að danska sjónvarpinu heldur einnig BBC World Service og erlendum blöðum, ekki síst eftir að ég fékk undratækið iPad.