1.2.2012

Miðvikudagur 01. 02. 12

Það var vel til fundið hjá Kastljósi að gefa Eiríki Inga Jóhannssyni, skipverja á togaranum Hallgrími sem fórst undan Noregsströndum í síðustu viku, svona góðan tíma tíma í kvöld til að segja frá einstakri lífsreynslu sinni.  Styrkur hans við slysið og björgunina endurspeglaðist í magnaðri frásögn hans.

Það er með ólíkindum ef 75% öryggismyndavéla í miðborg Reykjavíkur eru óvirkar og ef varsla í og við Stjórnarráðshúsið er með þeim hætti að ekki sé vitað í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hvernig eigi að bregðast við tilkynningu um sprengingu í næsta nágrenni þess. Fyrsta boðorð við alla öryggisgæslu er að búa þannig um hnúta að unnt sé að halda uppi eftirliti þar sem það er nauðsynlegt og grípa til réttra viðbragða sé þeirra þörf.

„Það gerist aldrei hér“ er setning sem alltof oft heyrist í umræðum um öryggismál á Íslandi. Í samræmi við hana lýsa menn síðan undrun yfir því þegar atburðir á borð við spreninguna í Hverfisgötu verða. Að sjálfsögðu geta sömu hlutir gerst hér og hvarvetna annars staðar.

Greiningardeild lögreglunnar var komið á fót til að fyrir hendi væri mat á því sem kynni að gerast í ljósi þróunar og vitneskju lögreglunnar. Upplýsingar deildarinnar byggjast á rannsókn vegna afbrota en ekki forvirkum rannsóknum. Skortur á þeim er veikur hlekkur í íslenskri öryggisgæslu.