9.2.2012

Fimmtudagur 09. 02. 12

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti 11. sinfóníu Dímítríjs Sjostakovítsj með miklum glæsibrag í kvöld undir stjórn Peters Oundijans.

Björn Valur Gíslason, orðhákur VG, bolsótast yfir því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skuli að nýju komnir í meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs. Hann beinir reiði sinni einkum að Gunnari I. Birgissyni og Ómari Stefánssyni. Tilgangur Björns Vals er að draga athygli frá þeirri staðreynd að Ólafi Þór Gunnarssyni, bæjarfulltrúa og varaþingmanni VG, mistókst að halda fráfarandi meirihluta á lífi.

Ólafur Þór Gunnarsson er í flokksklíku innan VG með Birni Vali og Steingrími J. Sigfússyni en þeim hefur haldist ákaflega illa á fólki eins og klofningur bæði innan þingflokks VG og bæjarstjórnar Kópavogs sýnir. Yfirgangssemi Björns Vals sem lýsir sér í stóryrðum hans um menn og málefni í von um að geta þannig mulið undir Steingrím J. mælist almennt illa fyrir innan flokksins. Þeir félagar einangrast sífellt meira og meira eftir því flæðir undan þeim.

Ólafur Þór sat á alþingi sem varamaður á meðan Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var í leyfi frá þingstörfum. Þá áttu þeir Steingrímur J. og Björn Valur innhlaup í suðvesturkjördæmi. Guðfríður Lilja og Ögmundur Jónasson sem sitja á þingi sem þingmenn VG í suðvesturkjördæmi gefa lítið fyrir Björn Val og Steingrím J. Þau líta nú þannig á að með því að glutra niður meirihlutasamstarfinu í Kópavogi hafi Ólafur Þór fyrirgert rétti sínum til að sitja á framboðslista VG.

Reiði Björns Vals á ekkert skylt við það sem hann kallar „gjörspillta stjórnmálamenn“ í öðrum flokkum hann er fyrst og síðast reiður yfir því að þeir Steingrímur J. hafa ekki lengur nein ítök í suðvesturkjördæmi.