8.2.2012

Miðvikudagur 08. 02. 12

Í dag ræddi ég við Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor í Háskólanum í Reykjavík, í þætti mínum á ÍNN. Tilefnið var ný bók Þingræði á Íslandi sem Forlagið gaf út fyrir jólin í tilefni af því að árið 2004 voru 100 ár liðin frá því að þingræði kom hér til sögunnar með heimastjórninni. Þingræðið er spennandi lögfræðilegt álitaefni sem dregur athygli að mörgu í stjórnmálum líðandi stundar og umræðum um breytingar á stjórnarskránni.

Ragnhildur ræddi um hina viðurkenndu lögfræðilegu niðurstöðu að fyrir venju yrðu til ígildi stjórnarskrárákvæða eins og reglan um að dómstólar ákvarði hvort lög samrýmist stjórnarskránni. Hún er hvergi skráð en styðst við venju frá því um 1900. Það er ekki unnt að breyta þessari reglu með venjulegum lögum. Ég spurði hvort ekki mætti líta þannig á að með samþykkt EES-laga  tæp 20 ár hefði orðið til stjórnarskrárregla og því væri ekki unnt að líta á samþykkt þessarar laga sem stjórnarskrárbrot eins og Össur Skarphéðinsson hefði sagt. Ragnhildur hafði ekki kynnt sér ummæli Össurar og leiddi því spurninguna um hann hjá sér en lýsti sérstöðu EES-samningsins.

Þegar ég vék að lúalegri framkomu Helga Seljans í garð Ögmundar Jónassonar í Kastljósi í gær vissi ég að einhverjir yrðu til að finna að þeim orðum. Ég átti þó ekki von á því að Björn Valur Gíslason, hinn orðhvati þingflokksformaður VG, gerði það á þann veg að slíta úr samhengi orð mín um boðsferðir í fyrri dagbókarfærslu hér á síðunni. Ögmundur er greinilega kominn á válista hjá ráðandi öflum innan þingflokks VG. Ég er undrandi á því hvað hann sýnir Birni Vali og Steingrími J. mikið langlundargeð. Þeir vinna leynt og ljóst gegn honum.

Spá mín er að sífellt fleiri innan VG átti sig á því að Ögmundur er mun vænlegri formaður flokksins en Steingrímur J. Ögmundur hefur ekki selt sál sína fyrir völdin eins og Steingrímur J. Fyrir flokk sem vill halda í prinsipp eru hrein öfugmæli að hafa mann eins og Steingrím J. á toppnum.