11.2.2012

Laugardagur 11. 02. 12

Í kvöld var Götterdämmerung (Ragnarök), lokaóperan í Niflungahringnum eftir Richard Wagner, sýnd í Kringlubíói beint frá Metropolitan-óperunni í New York. Allar fjórar óperunnar í Hringnum eftir Wagner hafa nú verið settar upp í Metropolitan-óperunni undir stjórn Kanadamannsins Robert Lepage. Þær hafa einnig verið sýndar í Kringlubíói og sá ég fyrstu óperuna Das Reihngold (Rínargullið) á sínum tíma en missti af Die Valküre (Valkyrjunum) og Siegfried. Sýningin á Götterdämmerung tekur tæpar 6 klukkustundir með tveimur hléum. Allur Hringurinn tekur um 15 klukkustundir og sá ég hann í heild á Wagner-hátíðinni í Bayreuth í Bæjaralandi fyrir nokkrum árum eins og sjá má hér á síðunni.

Wagner sækir efni í norræna goðafræði í þetta stórvirki sitt og hefur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur ritað bók þar sem hann lýsir því hvernig Wagner nýtir þetta efni. Er vaxandi áhugi á bókinni í Þýskalandi og hefur Árni farið margar ferðir til Þýskalands undanfarið, flutt fyrirlestra og kynnt bókina.

Á næsta ári, 2013, eru 200 ár liðin frá fæðingu Wagners og eru óperur hans sýndar víða um heim af því tilefni. Óperan í París, Bastillu-óperan, setur til dæmis upp Hringinn næsta vetur. Allur Hringurinn, óperunar fjórar, verða síðan sýndar einu sinni á átta dögum undir lok júní 2013. Miðasala á þann einstaka viðburð er nýhafin.

Í lok apríl og byrjun maí í ár mun Metropolitan-óperan sýna Hringinn í heild þrisvar sinnum. Óperan kynnir uppsetningar sínar á mjög skemmtilegan hátt á öflugri heimasíðu sinni eins og sjá má hér.