22.2.2012

Miðvikudagur 22. 02. 12

Í dag ræddi ég við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, á ÍNN. Við ræddum um ESB-aðildarumsóknina og breytingar á stjórnarskránni. Vigdís er mjög gagnrýnin á framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og telur að alþingi hafi látið draga sig alltof langt inn í öngþveitið sem stjórnarflokkarnir hafa skapað.

Ég varð undrandi þegar hún sagði mér að öllum embættisheitum ráðherra hefði verið eytt úr lagasafninu. Ég var bæði undrandi yfir skemmdarverki löggjafans og á því að þetta mál hefði ekki ratað markvisst inn í fréttir fjölmiðla af störfum þingsins.

Þá hafði ég ekki heldur gert mér grein fyrir því að afgreiðsla stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á tillögum stjórnlagaráðs er ekki reist á efnislegri afstöðu til tillagnanna heldur á tillögu til þingsályktunar sem Þór Saari og fleiri fluttu 4. október en hefur verið gjörbreytt í þingnefndinni til að þjóna þeim hagsmunum stjórnarflokkanna að þoka stjórnlagamálinu áfram án þess að tekin sé efnisleg afstaða til eins atriðis í tillögum stjórnlagaráðs. Í þeim búningi er málið sent að nýju til stjórnlagaráðs.

Ég reyni að skýra þennan skrípaleik vegna stjórnarskrárinnar í pistli sem ég birti á vefsíðu minni í dag.  Í fréttum RÚV er sagt í dag að stjórnlagaráð komi saman „til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunarnefndar að mögulegum breytingum á stjórnarskrá“. Þetta er einfaldlega rangt. Þingnefndin gerir engar tillögur umfram tillögur stjórnlagaráðs og ekki er heldur að finna neinar spurningar frá þingnefndinni.

Þingfréttaritari RÚV tekur sér einfaldlega fyrir hendur að fullyrða meira um tilefni þess að stjórnlagaráð kemur saman að nýju en unnt er að sannreyna með því að kynna sér gögn málsins á alþingi. Hvers vegna er staðið að málum á þennan hátt? Hvað veldur því að fréttamaðurinn reynir að bera í bætifláka fyrir meirihluta þingmanna á þennan hátt?