Meirihluti alþingis skilar auðu um stjórnarskrárbreytingar - kaupir Þór Saari til að bjarga ríkisstjórninni
Stjórnlagaráð lauk störfum og skilaði alþingi tillögum að nýrri stjórnarskrá 29. júlí 2011. Þingnefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var falið að ræða tillögur stjórnlagaráðs. Hún hefur kallað fyrir sig fjölda sérfræðinga og hefur enginn þeirra talið fært að afgreiða tillögunnar án viðamikilla athugana. Þá spurði þingnefndin Lagastofnun Háskóla Íslands hvort hún gæti tekið tillögurnar til skoðunar og smíðað úr þeim texta sem stæði lögfræðilegar kröfur. Stofnunin taldi að hún gæti það en þyrfti til þess eitt ár hið minnsta. Meirihluti þingnefndarinnar mátti ekki heyra á það minnst. Nefndin hefur ekki tekið efnislega afstöðu til neins ákvæðis í tillögum stjórnlagaráðs. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekki einu sinni tekið saman yfirlit um þær athugasemdir og þau gagnrýnisatriði sem fram hafa komið við tillögur stjórnlagaráðs.
Hinn 4. október 2011 fluttu Þór Saari, Róbert Marshall, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Bertelsson, Guðmundur Steingrímsson og Davíð Stefánsson eftirfarandi tillögu til þingsályktunar:
„Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 fari í eftirfarandi ferli:
a. Frumvarpið verði tekið á dagskrá Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2011 og rætt sem skýrsla og að því loknu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
b. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar (stjórnlaganefndar) með tilmælum um að lagt verði heildstætt mat á frumvarpið sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Að því loknu leggi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram tillögur að breytingum ef þörf er á fyrir stjórnlagaráð eigi síðar en 1. desember 2011. Frumvarpið verði að því loknu tilbúið til kynningar almenningi eigi síðar en 1. febrúar 2012.
c. Stjórnlaganefnd standi fyrir víðtækri kynningu á frumvarpinu um allt land í samvinnu við RÚV, og aðra fjölmiðla ef óskað er. Komi fram afgerandi ósk um breytingar á einstökum þáttum frumvarpsins í kynningarferlinu er stjórnlaganefnd heimilt að taka tillit til þeirra. Stjórnlaganefnd afhendi stjórnlagaráði skýrslu um kynningarferlið, tillögur um breytingar ef einhverjar eru og tillögu um tilhögun ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Kynningu og hugsanlegum breytingum skal lokið eigi síðar en 1. maí 2012.
d. Stjórnlagaráð geri tillögu til Alþingis um að frumvarpið fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel grein fyrir grein þar sem því verður við komið en þó þannig að fyllsta heildarsamræmis sé gætt. Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en í júní 2012, samhliða forsetakosningum ef verða, þannig að stefnt verði að því að frumvarpið megi afgreiða frá Alþingi fyrir næstu reglubundnu þingkosningar í apríl 2013.“
Tillögu þessari var vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Meirihluti nefndarinnar gjörbreytti tillögunni og afgreiddi hana frá sér 16. febrúar 2012 í þessum búningi:
„ Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 og skýrsla þar um sem vísað var til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fari í eftirfarandi ferli:
a. Með vísan til sameiginlegrar yfirlýsingar allra fulltrúa í stjórnlagaráði í bréfi til forseta Alþingis, dags. 29. júlí 2011, þar sem þeir lýsa sig reiðubúna til að koma aftur að málinu ef fram koma breytingartillögur við frumvarp ráðsins, verði stjórnlagaráð, sem skipað var af Alþingi 24. mars 2011, kallað saman að nýju til sérstaks fjögurra daga fundar í byrjun mars til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu, sem og um aðra þætti í frumvarpinu sem ráðinu þykir þurfa. Verði það niðurstaða stjórnlagaráðs að tilefni sé til að gera breytingar á áður fram komnum tillögum skal ráðið skila breytingartillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis eigi síðar en 12. mars 2012. […]
b. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geri tillögu til Alþingis um að tillögurnar í heild, með breytingartillögum stjórnlagaráðs ef við á, ásamt spurningum um helstu álitaefni verði bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Þingsályktunartillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu komi til lokaafgreiðslu Alþingis eigi síðar en 29. mars 2012 og verði hún samþykkt skal þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt tillögunni fara fram 30. júní 2012 samhliða forsetakjöri.
c. Alþingi skal standa fyrir víðtækri kynningu á efni þeirra tillagna og spurninga sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
Í áliti með breytingartillögunni sagði meðal annars:
„Við umfjöllun nefndarinnar um tillögur stjórnlagaráðs með fjölmörgum sérfræðingum, m.a. fulltrúum sem sæti áttu í stjórnlaganefnd, og yfirferð yfir umsagnir sem borist hafa um málið sem og umfjöllun í fjölmiðlum hafa vaknað spurningar sem meiri hlutinn teldi til bóta að fá svör stjórnlagaráðs við áður en tillögurnar verða lagðar fram í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, enda nauðsynlegt að tillögurnar fái ítarlega og vandaða meðferð og að um þær ríki sem almennust sátt.“
Af þessum orðum má ráða að meirihluti stjórnarskrár- og eftirlitsnefndar hefur ekki burði til þess að taka efnislega afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs og leggur því ekki annað fyrir ráðið en umsagnir sem borist hafa til nefndarinnar. Í nefndarálitinu segir:
“Meiri hlutinn telur að í ljósi þess að nú er nokkuð liðið frá því að tillögunum var skilað, umsagnir hafa borist um málið og umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum sé rétt að taka næsta skref, þ.e. að óska eftir samráði við stjórnlagaráð og efna síðan til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur málið til efnislegrar meðferðar sem frumvarp. Meiri hlutinn telur auk þess að með því að fara þessa leið verði umfjöllun um málið meiri og almennari bæði í fjölmiðlum og meðal almennra borgara og að niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu nýtist Alþingi vel við áframhaldandi meðferð málsins.
Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að leitað verði til stjórnlagaráðs og það kallað saman til sérstaks fjögurra daga vinnufundar til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu. Lagt er til að stjórnlagaráð skili breytingartillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eigi síðar en 12. mars nk.„
Einkennilegast í þessu áliti er að þar leggur meirihlutinn fram tillögu um hvað hann skuli sjálfur gera að lokinni meðferð málsins í stjórnlagaráði. Þetta gerir meirihlutinn þótt hann hafi ekki haft burði til þess síðan í október 2011 að sameinast um eitt einasta efnislega atriði sem hann sér ástæðu til að leggja fyrir stjórnlagaráð. Meirihlutinn segist ætla að leggja til við alþingi að efnt verði til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og alþingi taki afstöðu til þess fyrir 29. mars 2012 svo að tryggt sé að málið liggi fyrir frá þinginu þremur mánuðum fyrir forsetakosningar í lok júní 2012 og þjóðaratkvæðagreiðslan verði samhliða forsetakjöri, 30. júní 2012. Ekki er vikið einu orði að því um hvað skuli kosið í þessari atkvæðagreiðslu. Tilgangur hennar virðist helst sá að meirihluti alþingis geti skotið sér undan því að taka efnislega afstöðu til ákvæða í nýrri stjórnarskrá.
Skrifstofa alþingis á að standa fyrir víðtækri kynningu á efni tillagnanna sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Meirihluti nefndarinnar telur eðlilegt að fjölmiðlar taki þátt í þeirri kynningu og þá sérstaklega RÚV ohf.
Tillaga Þórs Saaris og fleiri tók þannig miklum breytingum í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en um hana svo breytta voru greidd atkvæði á alþingi 22. febrúar og var hún samþykkt með 30 atkvæðum gegn 15. Atkvæðagreiðslan sýnir að meirihluti alþingis treystir sér ekki til að takast á við efnisatriðin í tillögum stjórnlagaráðs.
Þetta er fráleit málsmeðferð af þingmönnum sem ber samkvæmt stjórnarskrá að flytja tillögu um breytingar á stjórnarskrá og afgreiða þær. Þetta er andkannalegt afbrigði af tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur frá því í febrúar 2009 þegar hún vildi afsala alþingi hlutverki stjórnarskrárgjafa. Fullyrt er að Þór Saari hafi samið um framgang tillögu sinnar við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon milli jóla og nýárs og jafnframt hafi þrír þingmenn Hreyfingarinnar, sem nú mælist með um 2-3% fylgi, heitið því að verja ríkisstjórnina vantrausti og þannig tryggt henni líf fram að kosningum í apríl 2013 enda óttist þingmennirnir ekkert meira en nýjar kosningar þar sem enginn þeirra nái endurkjöri fari svo fram sem horfir.
Pawel Bartoszek var formaður C-nefndar stjórnlagaráðs. Hann ritar um meðferð alþingis á tillögum stjórnlagaráðs á vefsíðuna Deigluna og segir að umræður þingmanna um tillögu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs hafi ekki verið „þingsins besta stund“. Hann segir:
„Í raun er öll meðferð Alþingis á tillögum ráðsins þinginu til vansa og skipulag þess leiðangurs sem framundan er með þeim hætti að jafnvel þolinmóðustu farþegarnir geta ekki annað en stigið frá borði. Því miður.“
Pawel bendir á að að fulltrúar í stjórnlagaráði hafi lýst sig reiðubúna til að koma að málinu aftur kæmu fram „hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs“. Nú liggi hins vegar ekki fyrir ein einasta tillaga alþingis um breytingu á frumvarpi stjórnlagaráðs. Hann segir:
“[M]ér sýnist í fljótu bragði að á því hálfu ári sem þingið hefur haft tillögurnar til umræðu hafi ekki farið fram neinar raunverulegar efnislegar umræður um inntak þeirra sjálfra. Né heldur hefur þingið farið í þá vinnu að rýna tillögurnar af einhverri alvöru, ýmist til að finna hugsanlega ágalla eða styrkja grundvöll þeirra stjórnarskrárbreytinga sem lagðar hafa verið fram.
Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. […] þeir þingmenn sem ýtt hafa þessu máli áfram nú, hafa algjörlega vanrækt þær skyldur sem lagðar eru á þá sem stjórnarskrárgjafa. […]
Það er vissulega þakkarvert að maður sé í hópi þeirra sem þingið treystir á ný til að hjálpa til við það ferli að leggja til breytingar á stjórnarskrá. En menn þurfa að þekkja sín takmörk. Ráðgefandi stjórnlagaráð mun ekki setja stjórnarskrá. Það mun þingið gera. Og fyrst þingið virðist hvorki hafa skoðun á stjórnarskrá né vilja til að rýna af viti í þær tillögur sem því berast, þá hef ég að sinni takmarkaðan áhuga á að veita því frekari ráð.„
Þessi gagnrýni eins af nefndarformönnum stjórnlagaráðs sýnir hve illa hefur verið staðið að málum af hálfu meirihluta alþingis. Þá er greinilega snúið út úr orðum stjórnlagaráðs um vilja þess til að koma saman að nýju þegar alþingi ákveður að ráðið skuli hittast í fjóra daga og ræða eigin tillögur að nýju án þess að þingið leggi nokkur ný efnisatriði fyrir ráðið.
Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á þingi sjá tvo kosti við þessa málsmeðferð: 1. Að komast hjá því að fjalla um efnislega þætti í tillögum stjórnlagaráðs. 2. Að kaupa Þór Saari og tvo aðra þingmenn Hreyfingarinnar til stuðnings til ríkisstjórnina.