Mánudagur 20. 02. 12
Hin pólitíska rétthugsun tekur á sig ýmsar myndir. Eins og kunnugt er snýst hún um að smíða kennisetningar til að ýta heilbrigðri skynsemi til hliðar. Umræðustjóri RÚV er einn þessara kenningarsmiða og í tilefni af hæstaréttardómi yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, þar sem Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði sératkvæði grípur Egill Helgason til þess ráðs í nafni pólitískrar rétthugsunar að skýra niðurstöðu Ólafs Barkar með vísan til þess að hann sé frændi Davíðs Oddssonar.
Þessi tugga er orðin svo margþvæld að með ólíkindum er að enn einu skuli gripið til hennar. Hitt er ljóst að ýta þarf heilbrigðri skynsemi til hliðar til að ímynda sér að Ólafi Berki hafi ekki verið ljóst þegar hann samdi sératkvæði sitt í máli Baldurs að óvildarmenn hans mundu einmitt taka pól Egils í hæðina. Hann lét það hins ekki aftra sér eða hindra að hann færði lögfræðileg rök fyrir niðurstöðu sinni.
Málflutningur eins og sá sem birtist í gagnrýni Egils Helgasonar á afstöðu Ólafs Barkar er í ætt við þá ákvörðun Þorvalds Gylfasonar prófessors að rita Evu Joly, fyrrverandi rannsóknardómara og núverandi forsetaframbjóðandi græningja í Frakklandi, opið bréf og kvarta undan áliti á störfum forstjóra fjármálaeftirlitsins.
Þetta eru málskot sem skipta engu um efni þeirra mála sem eru til úrlausnar. Þau eru aðeins staðfesting á því að hér séu menn sem telji að til sé einhver annar veruleiki en við blasir beiti menn heilbrigðri skynsemi.