28.2.2012 22:41

Þriðjudagur 28. 02. 12

Hinn 17. maí 2010 fjallaði ég hér á síðunni um árásir þingmanna vinstri-grænna á Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta alþingis, vegna máls nímenninganna sem réðust inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. Ég lýsti undrun yfir því að Björn Valur Gíslason, núverandi þingflokksformaður VG, hefði flutt tillögu til þingsályktunar um að skrifstofustjóri alþingis skyldi mælast til þess við ríkissaksóknara að hann afturkallaði ákæru á hendur nímenningunum. Þetta er sami Björn Valur sem nú telur fráleitt að alþingi afturkalli eigin landsdómsákæru á hendur Geir H. Haarde.

Í þessum pistli frá 17. maí 2010 segi ég meðal annars:

„Frægt er, að Álfheiður Ingadóttir, núverandi heilbrigðisráðherra vinstri-grænna og þáverandi þingmaður þeirra, fór hamförum innan dyra í þinghúsinu 8. desember 2008 og lét orð falla á þann veg, að sín vegna mættu árásarmennirnir brjóta allt og bramla í þinghúsinu, svo að vitnað sé til orða Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í þingræðu 14 maí.

Í mínum huga var aldrei neinn vafi á því þessa daga í kringum áramótin 2008/09, að mótmælin við alþingishúsið voru runnin undan rifjum vinstri-grænna. Skýrasta sönnun þess er raunar, að öll mótmæli hafa verið næsta bitlítil, frá því að vinstri-grænir settust í ríkisstjórn.

Ég minnist þess að hafa einu sinni komið að þinghúsinu, þegar slegin hafði verið um það keðja fólks, sem hélst í hendur. Birtist, ef ég man rétt, mynd  af því í blaði, þar sem ég beygi mig undir handleggi tveggja mótmælenda á leið til þinghússins. Í þeim hópi, sem ég sá þarna, var Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, núverandi menntamálaráðherra, sem hefur lýst yfir stuðningi við tillögu Björns Vals.“

Offors Álfheiðar þegar þessi saga er rifjuð upp er með ólíkindum eins og sannaðist enn í dag þegar hún gerði hróp að Jóni Gunnarssyni í ræðustól. Minna lætin helst á þegar Álfheiður stóð á Hlemmi við lögreglustöðina og hvatti til áhlaups á hana í nóvember 2008.