19.2.2012

Sunnudagur 19. 02. 12

Við að horfa á heimildarþáttinn um Sundhöllina í sjónvarpinu í kvöld rifjaðist upp þegar ég var í hópi þeirra sem þangað komu fyrst í morgunsárið. Hópurinn hefur  hvorki yngst né stækkað síðan en nokkur ár eru nú liðin frá því að ég flutti mig í Laugardalslaugina. Ég gerði það á sínum tíma þegar Sundhöllinni var lokað vegna viðgerða og ílentist.

Mun fleiri standa við dyrnar í Laugardalnum klukkan 06.30 á morgnana en sækja Sundhöllina á sama tíma. Þjónustan er betri fyrir morgunhana í Sundhöllinni því að þar fá þeir að bíða innan dyra þar til klukkan slær en í Laugardalnum verða menn að standa utan dyra hvernig sem viðrar.

Nú er unnið að miklum viðgerðum í Laugardalslauginni án þess að henni sé lokað. Hitalagnir og nýtt efni hefur verið sett á stéttina milli búningsklefa og laugarinnar. Margir hafa lengi kvartað undan því þegar salti er stráð á stéttina í hálku en nú er það sem sagt liðin tíð.

Helsti munurinn á því að stunda Sundhöllina og Laugardalslaugina felst í tvennu: í Laugardalnum er 50 m laug í stað 25 m og allt annað er að synda utan dyra en inni.