13.2.2012

Mánudagur 13. 02. 12

Össur Skarphéðinsson sýnir Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, dónaskap í svari til hennar vegna fyrirspurnar um hvernig var staðið að því að koma á fót Evrópustofu hér á landi fyrir fé frá stækkunardeild Evrópusambandsins.

Svar Össurar um að hann og ráðuneyti hans hafi ekki komið að málinu gengur þvert á það sem mér var sagt þegar ég heimsótti Media Consulta í Berlín undir lok október 2011. Fyrirtækið samdi við stækkunardeildina að loknu útboði. Ég hef skrifað forstöðukonu Evrópustofu og óskað svara við spurningum varðandi málið en Össur segir meðal annars í yfirlætisfullu svari sínu að Vigdís ætti ekki að spyrja sig heldur Evrópustofu. Nú reynir á sannleiksást þeirra sem þar starfa þegar þeir standa frammi fyrir svari Össurar. Verður fróðlegt að sjá hvort Evrópustofa stenst trúverðugleikaprófið.

Steingrímur J. Sigfússon sagði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að þegja í svari sínu við spurningum um gleði utanríkismálanefndar ESB-þingsins yfir því að Steingrímur J. tók við ráðherraembætti af Jóni Bjarnasyni.

ESB-þráðurinn er sífellt að styttast hjá ráðherrunum enda þrengist að þeim úr því að þeir hafa kosið þá leið í umræðum um ESB-aðildarumsóknina að skýra ekki satt og rétt frá málavöxtum. Spurning er hvenær stóra sprengjan verður en ekki hvort. Það er ekki til lengdar unnt að láta eins og veruleikinn í þessu máli sé hannaður í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg. Evrópusambandið ræður ferðinni og sækir ekki síður að ráðherrunum en þeir sem spyrja þá á alþingi.

DV  boðar að Jón Ásgeir Jóhannesson muni sitja fyrir svörum lesenda. Blaðið er helsta málgagn Jóns Ásgeirs um þessar mundir á sama tíma og fréttir berast af því að hann hafi starfsaðstöðu í höfuðstöðvum 365 miðla sem eru í eigu eiginkonu hans. Fyrir nokkru var orðrómur um að Jón Ásgeir hefði lagt DV  til fjármuni og fleyti þeir blaðinu áfram. Fréttastofa RÚV vitnaði í DV í tveimur fréttum í kvöld annars vegar um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og hins vegar um hvaða lögfræðingar hefðu farið í bíó saman og tengdi það málaferlum gegn Baldri Guðlaugssyni.