12.2.2012

Sunnudagur 12. 02. 12

Nú er viðtal mitt á ÍNN frá 8. febrúar við Ragnhildi Helgadóttur, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, komið á netið og má sjá það hér. Við ræddum um stjórnarskrármálefni með hliðsjón af bókinni Þingræði á Íslandi sem kom út í lok síðasta árs.

Á Evrópuvaktinni birtist frétt um ACTA-samninginn sem sætir mikilli andstöðu í Þýskalandi, Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Lettlandi. Framkvæmdastjórn ESB gerði samninginn í samvinnu við 10 ríki utan ESB, þar á meðal Bandaríkin. Markmið samningsins er að sporna gegn stuldi á höfundarrétti með eftirgerð á vörum, hann nær hins vegar einnig til netheima. Aðferðin, leyndin, við gerð samningsins hefur vakið tortryggni netverja og efndu þeir til mótmæla víða um heim í gær.

Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki sýnt þessu máli áhuga og þess hefur ekki orðið vart hér á landi að menn láti sig þennan nýja samning neinu varða. Eitt er efni hans annað aðferðin við gerð hans. Hún gengur gegn röksemdum þeirra sem segja að með aðild að ESB stæðu Íslendingar betur að vígi en innan EES til að gæta íslenskra hagsmuna gagnvart embættismannaveldinu í Brussel.  ACTA-samningurinn var gerður þegjandi og hljóðalaust og fréttir af honum benda til þess að tilviljun ein hafi ráðið að fréttir bárust af honum til almennings.

Danski þátturinn Borgen eða Höllin á íslensku sýnir að stjórnmál eru alls staðar á sama veg. Harkan er mikil í dönskum stjórnmálum  þegar litið er til þess hve nærri stjórnmálamönnum er gengið í fjölmiðlum. Lene Espersen varð til dæmis að segja af sér sem formaður Íhaldsflokksins eftir að markvisst var saumað að henni sem utanríkisráðherra og látið í veðri vaka að hún hugsaði meira um frí með fjölskyldu sinni en að sækja alþjóðafundi. Þá hefur verið gert grín að Villy Sövndal, núverandi utanríkisráðherra og formanni sósíalíska þjóðarflokksins, fyrir hve lélegur hann sé í ensku og hafi verið í krumpuðum fötum þegar hann hitti Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington.

Í þættinum er orðið ráðasmiður notað til að íslenska spindoktor. Ég minnist ekki að hafa séð það í þessari merkingu áður, hef notað orðið spunaliði. Það nær betur því sem á að lýsa; ráðasmiður er hvorki gagnsætt né felst í orðinu sá óvirðingartónn sem fylgir orðinu spindoktor.