6.2.2012

Mánudagur 06. 02. 12

Merkilegt ef unnt er að beina umræðum um 480 milljarða króna tap lífeyrissjóðanna inn á þá braut að málið snúist um boðsferðir til stjórnenda sjóðanna og þar með sé látið í veðri vaka að tekin hafi verið óeðlileg áhætta vegna þeirra. Þegar fjölmiðlamenn gera svo mikið veður út af áhrifamætti boðsferða verður mér oft hugsað til þess með hvaða hugarfari þeir sjálfir þiggja boð í slíkar ferðir.  Verða þeir fyrir svo miklum áhrifum að taka beri öllu með fyrirvara sem þeir segja í ferðinni eða eftir hana?

Í tíð minni sem blaðamaður sá ég aldrei neitt athugavert við að þiggja boð í kynnisferðir í öðrum löndum eða á fundi og ráðstefnur erlendis. Ég leit þannig á að ég yrði að haga öllu sem ég skrifaði á þann veg að ég glataði ekki trausti lesenda Morgunblaðsins. Hafi stjórnendur lífeyrissjóða tekið að haga sér á ábyrgðarlausan hátt eftir einhverja boðsferð hefði það örugglega vakið tortryggni einhvers staðar á sínum tíma. Á hinn bóginn er annar kvarði notaður til að leggja mat á starfshætti sjóðanna nú en fyrir hrun.

Skýrasta dæmið um hið breytta viðhorf má sjá í umræðum um matsfyrirtækin og einkunnir þeirra. Enginn dró einkunnirnar í efa á meðan allt lék í lyndi en um leið og syrtir i álinn og þau taka til við að lækka einkunnir á setja þau út af sakramentinu. Miklar umræður eru um þessi fyrirtæki víða um lönd. Margir fóru flatt á því að taka mark á þeim fyrir hrun. Skyldu þau hafa ráðið einhverju um ákvarðanir stjórnenda lífeyrissjóðanna?

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins árið 2007. Hann segir á vefsíðu sinni 4. febrúar:

„Nauðsynlegt er að skoða það áfall sem lífeyrissjóðakerfið varð fyrir í samhengi við hrunið  sem hér varð og þá efnahagskreppu sem heimsbyggðin hefur verið að ganga í gegnum. Bankakerfið á Íslandi fór allt á hausinn. Sama á við um flesta sparisjóði. Fjárfestingafélög fóru flest í þrot og sama gilti um sum tryggingafélög. Erlendis urðu lífeyrissjóðir fyrir miklu áfalli. Á árinu 2008 var meðalávöxtun lífeyrissjóða innan OECD 23% í mínus. Sama ár tapaði norski olíusjóðurinn fjórðungi af eignum sínum.“