23.2.2012

Fimmtudagur 23. 02. 12

Simone Kermes barokksópransöngkonu var fagnað vel og innilega að loknum tónleikum í röðinni Eftirlætis barokk í Hörpu í kvöld.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn ætlar að bjóða sig fram til embættis annars varaformanns Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi 17. mars. Þetta kom fram á Bylgjunni í morgun.  Það er fagnaðarefni að maður með reynslu Geirs Jóns skuli hefja beina þátttöku í stjórnmálum þegar hann lætur af störfum eftir farsælt starf í lögreglunni þar sem hann hefur áunnið sér traust og virðingu.

Ingimar Karli Helgasyni var sagt upp störfum á Stöð 2 í febrúar 2011 og skrifar nú um pólitík og fjölmiðla á VG-vefsíðunni segir í tilefni af yfirlýsingu Geirs Jóns:

„Það [yfirlýsingin] gerir raunar að verkum að ég sé sumt í aðeins öðru ljósi en áður. Það eru viðbrögð hans við mótmælum í Búsáhaldabyltingunni annars vegar og svo hins vegar þegar mótmælt var við þingsetningu eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við.“

Yfirlögregluþjónn er reglulega spurður frétta og ég minnist þess ekki fyrr að Geir Jón hafi sætt gagnrýni af því tagi sem fram kemur hjá Ingimar Karli. Skrif hans mótast af pólitískri óvild þótt hann tali hlýlega til Geirs Jóns í hinu orðinu.

Forvitnilegt væri að sjá Ingimar Karl gera úttekt á öllum fréttamönnunum sem hafa starfað við að flytja óhlutdrægar fréttir en hverfa beint frá því í framboð eða önnur flokkspólitísk störf. Ólíklegt er að Ingimar Karl leggist í slíka rannsóknarblaðamennsku enda mundi niðurstaðan hitta hann sjálfan.