2.2.2012

Fimmtudagur 02. 02. 12

Síðdegis sat ég fund Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Fjöldi manns hlýddi þar á umræður um hleranir lögreglu og hvaða skilyrði ættu að gilda um heimild til þeirra. Sérstakur saksóknari hefur fengið fjölmargar heimildir til að hlera síma og af því sem fram kom á fundinum mátti ráða að dómarar hefðu veitt þær með vísan til ákvæða sakamálalaga um „ríka almannahagsmuni“.

Ágreiningur var um túlkun á almannahagsmunum í þessu tilliti. Skýra ætti þá með vísan til þess að hlerun væri nauðsynleg  í því skyni að rjúfa brotaferli en ekki á þann veg að hlera ætti vegna brota sem hugsanlega hefðu verið framin fyrir nokkrum árum eins og efnahagsbrot. Á móti þessu sjónarmiði var bent á nauðsyn þess að beita öllum lögmætum ráðum, þar á meðal hlerunum, til að upplýsa mál og varla væri unnt að benda á stærri mál sem snertu ríka almannahagsmuni en hrun bankakerfisins.

Á fundinum var enginn ágreiningur um nauðsyn og gildi símhlustunnar við að upplýsa sakamál. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að ríkissaksóknari héldi uppi því eftirliti með framkvæmd hlerana sem honum væri skylt lögum samkvæmt. Var skýrt frá því að eftirlitið væri nú framkvæmt á skipulegan hátt.

Fyrir sex árum ollu „uppljóstranir“ um margra áratuga gömul hleranamál miklu uppnámi á pólitískum vettvangi, umræðum utan dagskrár á alþingi og urðu jafnvel hluti af prófkjörsbaráttu hjá sjálfstæðismönnum.

Nú þegar símhleranir eru tíðari og víðtækari en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni hreyfa aðeins fáeinir verjendur þeirra sem sæta hlerunum að ósk sérstaks saksóknara andmælum. Augljóst er að andrúmsloftið í samfélaginu ræður meiru um afstöðu til hlerana en hlustunin sjálf. Því var spáð á fundinum í Háskólanum í Reykjavík að síðar yrðu örugglega harðar umræður um þennan þátt í rannsókn mála vegna bankahrunsins.

Undanfarið hef ég vakið máls á skjallbandalagi hér á síðunni. Kenning mín um það fellur saman við þetta sem Eiríkur Jónsson stjörnubloggari færði á síðu sína miðvikudaginn 1. febrúar:

„Líf og fjör á gangstéttinni fyrir utan Kaffifélagið á Skólavörðustíg eldsnemma í morgun.

Drakk þar morgunkaffið með Hallgrími Helgasyni og frú, Jóhanni Haukssyni nýráðnum blaðafulltrúa ríkisstjórnarinnar og sjónvarpsstjörnunum Helga Seljan og Agli Helgasyni.

Alvörumálin krufin með hálfkæringi – en mest þó hlegið að lífinu,“