18.2.2012

Laugardagur 18. 02. 12

Í dag hitti ég tvo gamla bændur í Fljótshlíðinni, Böðvar í Butru og Ásgeir í Kollabæ, og fræddist af þeim um lífið hér í sveitinni. Böðvar hefur verið á Butru í 88 ár.  Hann man þegar hann var fluttur þangað 2 ára frá Lambhaga vegna veikinda móður sinnar. Ásgeir er rúmlega áttræður. Hann er frá Reynifelli sem er norðvestan við Þríhyrning. Báðir hafa búið einir, gera enn þrátt fyrir háan aldur og hafa frá mörgu að segja.

Ég skoðaði einnig lömbin tvö undan Fjalladrottningunni minni sem var skotin í leitum 28. október 2011. Í fyrstu virtist ætlun skotmanna að lóga lömbunum eins og móður þeirra að mér forspurðum en þau fengu að lifa og njóta nú góðs atlætis hjá Viðari í Hlíðarbóli. Annað lambanna, svört kollótt gimbur, hefur náð sér vel á strik og mun lifa. Henni hefur ef til vill verið gefið forystueðli móður sinnar. Mér skilst að enn séu þrjár ær inni á afrétti og njóti þar frelsis í friði.

Ég skrifaði pistil á síðuna í dag í tilefni af 17 ára afmæli hennar.