16.2.2012

Fimmtudagur 16. 02. 12

Í kvöld talaði ég um stöðuna í ESB-viðræðunum á fundi í Rótarý-klúbbi Rangæinga og svaraði spurningum fundarmanna. Staðan í viðræðunum er margþætt. Eitt er víst þær hafa þróast á allt annan veg en aðildarsinnar spáðu á þessum tíma fyrir þremur árum.

Ég sagði ýmislegt benda til þess að nú sætu þeir sem ættu að gæta hagsmuna Íslands gagnvart ESB í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum og semdu við sjálfan sig um markmið Íslendinga gagnvart ESB. Viðræðunefndirnar gerðu sér grein fyrir því að ekki væri neinna sérlausna að vænta, þær vildu því slá af kröfum áður en gengið yrði til viðræðna við ESB og máta sig fyrirfram inn í ramma ESB og kynna síðan markmið sem ekki væru of langt frá ESB til þess að ekki yrði sagt að viðræðunefndin hefði gefið allt of mikið til að ná samkomulagi.

Hér var þess getið í gær að í Spegli RÚV hefði ekki verið minnst á hæstaréttardóminn um að lög frá ríkisstjórninni um stöðu skuldara hefðu verið brot á stjórnarskránni. Í dag tók Gunnar Gunnarsson á sig rögg og ræddi málið við sjálfan seðlabankastjóra Má Guðmundsson sem vildi sem minnst úr málinu gera og sagði þetta ekki skipta seðlabankann neinu auk þess mundu íslensku bankarnir ekki fara á hliðina vegna þessa, þetta væri sem sagt bara allt í lagi og ástæðulaust að fara af hjörunum.

Þessi umfjöllun í Speglinum var dæmigerð fyrir þá sem vilja draga athygli frá pólitískri hlið málsins og telja að það snúist um stöðu bankanna. Árni Páll Árnason, ráðherra málsins á þeim tíma sem lögin voru samþykkt, talaði út og suður  í Kastljósi. Annars vegar fagnaði hann því að bankarnir stæðust álag vegna dómsins hins vegar sagði Árni Páll að „svigrúm bankanna“ ætti ekki að ráða heldur staða skuldara Honum tókst að slá Helga Seljan út af laginu og hlustendur voru ekki neinu nær að lokum um hvað málið snerist. Ekki var minnst einu orði á að Árni Páll hefði staðið að lögum sem brutu í bága við stjórnarskrá. Mátti helst skilja að svo væri vegna einhvers eldri dóms hæstaréttar. Staðfest var í lokin að ríkisstjórnin hefði meirihluta á alþingi og sæti meðan svo væri!