17.2.2012

Föstudagur 17. 02. 12

Í stjórnarskránni er mælt fyrir hvernig staðið skuli að breytingum á henni og er það í valdi alþingis. Strax eftir að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra reyndi hún með aðstoð Framsóknarflokksins að knýja fram samþykki alþingis við því að þingið afsalaði þér þessu valdi. Jóhanna náði þessu ekki fram enda beittum við sjálfstæðismenn á þingi málþófi til að stöðva þetta ofbeldi. Þegar Jóhanna flutti tillögu sína um breytingu á stjórnarskránni að nýju hafði hún fellt á brott ákvæðið um að alþingi ætti ekki síðasta orðið um stjórnarskrárbreytingar.

Kosningar til stjórnlagaþings mistókust, þeir sem kjörnir voru ólöglegri kosningu hlutu þó skipan í stjórnlagaráð. Þar fengu allir eitthvað fyrir sinn snúð og skilaði ráðið alþingi tillögum sem eru að mati sérfróðra manna haldnar þeim ágalla að þær eru ganga ekki upp vegna innbyrðis árekstra.

Þingnefnd hefur fjallað um málið og nú ætlar meirihluti hennar að kalla stjórnlagaráðið saman að nýju fyrir nokkrar milljónir króna til að leggja mat á það sem gerst hefur hjá þingnefndinni í vetur. Loks er sagt að kosið verði um eitthvað tengt stjórnarskránni þegar gengið verður til forsetakjörs í lok júní 2012.

Meðferð stjórnarskrármálsins á þingi ber öll einkenni þjónkunar við Jóhönnu Sigurðardóttur og er enn til marks um hve langt þingmenn Samfylkingarinnar eru fúsir að ganga til móts við kröfur hennar þótt augljóst sé öllum öðrum að þær séu út í hött. Í raun eru þær álíka mikið út í hött og þegar Jóhanna svaraði gagnrýni á sig fyrir að hunsa viðskiptaþing 2012 með þeim orðum að hún væri hrærð yfir að hennar hefði verið saknað. Hundalógík af þessu tagi kann að eiga rætur að hjá Jóhanni Haukssyni. Hún dugar þó skammt og lækkar aðeins enn frekar risið á forsætisráðherra.