Laugardagur 10.1.1998
Klukkan 15 opnaði ég sýningu Fyrirmyndar í Ásmundarsal, en þar sýna myndskreytar verk sín. Þaðan fórum við í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem þrjár sýningar höfðu verið opnaðar eftir Kjartan Ólason, Steinunni Helgadóttur og Blaðaljósmyndir 1997. Það eru Blaðamannafélag Íslands og Blaðaljósmyndarafélag Íslands, sem standa að ljósmyndasýningunni, og velur þriggja manna dómnefnd bestu myndir í nokkrum flokkum. Meðal annars er besta portrettið valið og gladdi mig sérstaklega, að í þeim flokki var Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, á besta portrettinu og í sýningarskrá segir : Ásdís Halla Bragadóttir - Bjartasta von Sjálfstæðisflokksins sýnd í réttu ljósi. Myndina tók Ari Magnússon fyrir Heimsmynd.