Þriðjudagur 20.1.1998
Í vikunni lagði ég á ráðin um margvísleg málefni og gekk frá frumvörpum um listskreytingasjóð, lögverndun kennararéttinda og íþróttamál, sem ég ætla að leggja fram á þingi, þegar það kemur saman að nýju 27. janúar. Einnig var unnið markvisst að ákvörðunum, sem snerta námskrár grunnskólans og framghaldsskólans. Undirbý ég almenna kynningu á því máli meðal annars með útgáfu á bæklingi, sem fari inn á hvert heimili í landinu til að búa menn undir lokatörnina í endurskoðunarvinnunni. Klukkan 9.30 kom ríkisstjórnin saman til fyrsta fundar síns í endurbættu Stjórnarráðshúsi. Hefur fundarsalur ríkisstjórnarinnar verið færður á nýjan stað í húsinu, það er í herbergið, þar sem skrifstofa forsætisráðherra var áður. Þar inni hangir aðeins málverk af Hannesi Hafstein og síðan landslagsmyndir. Myndir af fyrri ríkisstjórnum hanga í nýrri og glæsilegri biðstofu en málverk af Ólafi Thors er í einkaskrifstofu forsætisráðherra, málverk af Hermanni Jónassyni og Bjarna Benediktssyni eru á veggjum biðstofunnar. Þá hafa brjóstmyndir af forsetum lýðveldisins verið fluttar ú fundarsal ríkisstjórnarinnar og hefur þeim verið valinn staður að Bessastöðum. Hefur húsinu verið breytt verulega og er starfsaðstaða þar betri en áður var auk þess sem ljóst er, að ekki mátti dragast lengur að gera við húsið.