22.1.1998 0:00

Fimmtudagur 22.1.1998

Í hádeginu efndi ég til fundar með skólameisturum þeirra skóla, sem ætla að bjóða nám á nýrri sjávarútvegsbraut næsta haust. Einnig var þar skýrt frá samkomulagi um aukið samstarf Vélskólans og Stýrimannaskólans í Reykjavík, sem leiðir til þess að Stýrimannaskólinn verður áfangaskóli og tekur þannig stakkaskiptum. Ráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu um málið daginn eftir, en hún virðist ekki hafa vakið mikinn áhuga fjölmiðla, að minnsta kosti töluvert minni en hugmyndir um nýtingu á Sjómannaskólahúsinu. Hef ég áður vakið máls á því, að inntak skólastarfs vekur mun minni áhuga en ytri umgjörð þess, en inntakið skiptir auðvitað höfuðmáli, fyrir þá sem skólana sækja. Síðdegis þennan sama dag boðaði ég til fundar í ráðuneytinu um Vígðulaug á Laugarvatni en ætlunin er að gera betur við laugina, ekki síst með hliðsjón af kristnitökuafmælinu árið 2000. Heimamenn á Laugarvatni, þjóðminjavörður, prófastur á Suðurlandi og fleiri sátu þennan fund.