Föstudagur 23.1.1998
Síðdegis boðaði ég forráðamenn nemendafélaga í skólum á háskólastigi til fundar í ráðuneytinu og kynnti þeim hugmyndir, sem við höfum verið að vinna að til að treysta réttarstöðu nemenda í háskólum á grundvelli nýju háskólalaganna. Er ljóst, að ráðuneytið mun eiga annars konar samskipti við skólana og nemendur þeirra eftir gildistöku nýju laganna. Hugmynd ráðuneytisins er, að sett verði á fót ein áfrýjunarnefnd fyrir nemendur í öllum skólum á háskólastigi, sem sinni kærum nemenda um þau mál, sem kæranleg eru, eftir að þau hafa hlotið meðferð innan hvers skóla. Hér er um viðamikið og viðkvæmt mál að ræða, sem þarna var rætt í fyrsta sinn og verður rætt frekar og sent til umsagnar einstakra nemendafélaga og stjórna háskólanna. Raunar var þessi fundur sögulegur í því ljósi, að hann er hinn fyrsti, sem boðað er til með fulltrúum nemenda úr öllum skólunum. Klukkan 17 opnaði ég sýninguna Vaxtarbrodda í Ráðhúsinu en þar er að finna verk nýútskrifaðra arkitekta, landslagsarkitekta, innanhússhönnuða og iðnhönnuða. Var mikið fjölmenni saman komið til að skoða sýninguna og samfagna unga fólkinu.