13.8.2013 23:10

Þriðjudagur 13. 08. 13

2 Guns hin nýja kvikmynd Baltasar Kormáks var forsýnd í Smárabíói í kvöld og sá ég hana í boði Gunnars Eyjólfssonar, guðföður Baltasars.

Í stuttu máli skemmtum við okkur prýðilega. Baltasar heldur fagmannlega á hinum flókna, hraða og spennandi söguþræði. Á einu stigi myndarinnar þótti mér þræðirnir  svo flóknir og ævintýralegir að það þyrfti hjáleið undir lokin til að dæmið gengi upp. Svo var ekki og er það ekki síst markvissri yfirsýn leikstjórans að þakka. Blóðbaðið var að vísu töluvert án þess að nokkur tæki það sérstaklega nærri sér. Í stuttu ávarpi fyrir sýninguna sagði Baltasar að sér hefði komið á óvart að í Ameríku kipptu menn sér helst upp yfir því að skotið væri á hænur í myndinni!

Tvíleikur Denzels Washingtons og Marks Wahlbergs sýnir hvernig leikstjóra tekst að stilla tvo ólíka stórleikara inn á þá bylgjulengd sem dugar til að blása lífi í atburðarás sem ella einkenndist aðeins af hrottaskap.

Í frétt sem birtist hjá AP-fréttastofunni um myndina segir Nikki Rocco, dreifingarstjóri Universal, að 2 Guns standi undir væntingum fyrirtækisins og að velgengni myndarinnar megi rekja til íslenska leikstjórans Baltasar Kormáks og að í fyrsta sinn megi sjá Washington og Wahlberg í tvíleik.

„Þetta er einvalalið,“ sagði hún. „Þarna má sjá einstakan samleik. Þessir tveir vinna svo vel saman. Þið sjáið það á tjaldinu. Baltasar veitti þeim einfaldlega kraft sem gerði þeim kleift að gera það sem þeir sýna í þessari mynd.“

Næst ætlar Baltasar að klífa Everest. Sigrum hans er ekki lokið.